Helgi og Hannes – munúð

Frost hefur legið á dag eftir dag. Vikur. Og logn. Svifryk mælst yfir heilbrigðismörkum við ein gatnamót. Lungnaveikir hóstað í sundur rifbein. Kliður farið um fjölmiðla. Fólk hvatt til að leggja bílum, afnagla dekk, ferðast með strætó, hjóla eða ganga til vinnu. Vinirnir Helgi og Hannes sitja í dag við Sólarskipið. Hannes hefur vafið trefli um höfuðið á sér. Það er mjó rifa fyrir augun.

Lesa áfram„Helgi og Hannes – munúð“

Helgi og Hannes – kökkurinn

Það er bekkur úti í Örfirisey skammt frá Seglagerðinni Ægi. Hann er norðan við götuna. Þar hefur umhverfið verið lagað til, bílastæði gert og göngustígur. Þaðan er útsýni yfir sundin og eyjar, og Esjan skreytir bakgrunninn. Eldrautt tankskip liggur við olíubryggjuna. Fiskibátur stímir að landi. Gámaskip hverfur bak við Engey á leið í höfn. Hannes situr á bekknum. Helgi kemur að og horfir út á sjóinn. Hann er móður.

Lesa áfram„Helgi og Hannes – kökkurinn“

Helgi og Hannes – ástarbrími

Hlýindi undanfarna daga hafa mildað skap margra Reykvíkinga. Fólk sem hélt sig innanhúss hefur nú dregið fram göngustafi og klossa og farið í lengri og styttri göngur. Það gerðu þeir einnig félagarnir Helgi og Hannes og hittust í morgun á bekknum í kverkinni þar sem mætast Suðurbugt og Ægisgarður. Hafflöturinn var sléttur og vinalegur. Bátar hvíldu kyrrlátir við flotbryggjur.

Lesa áfram„Helgi og Hannes – ástarbrími“

Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík II

Eftir Albert Marquet lá leiðin í sal fjögur. Þar hófst ein veislan til viðbótar. Það er undravert hvað salur í listasafni getur verkað sterkt á mann. Þegar vel tekst til. Í sal fjögur hefur tekist vel til. Andblærinn er öðruvísi. Ég rifjaði upp ástarstrauma sem ég upplifði um árið þegar við Ásta heimsóttum National Gallery í London. Það var í fyrstu ferð okkar til London, fyrir margt löngu.

Lesa áfram„Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík II“

Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík I

Við fórum tveir niður í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Ég A og ég B. Við tveir. Það er ég. Já, og þetta skrítna fyrirbæri sem stundum tekur yfir, sjálfsveran og vikusálin, svo vitnað sé í Rousseau sem talaði um tvennskonar lunderni sem skiptist reglulega á og hann kallaði vikusálirnar sínar. Og hann bætti við að önnur gerði vit hans sturlað en hin gerði sturlun hans vitra. En þó þannig að sturlunin væri vitinu yfirsterkari í báðum tilvikum.

Lesa áfram„Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík I“