Við sátum saman á pallinum framan við Litlatré á sunnudaginn var. Það var loka samvera eftir velheppnað árlegt vísnakvöld, sem svo er nefnt, en hluti fjölskyldunnar kemur saman eina helgi síðsumars, leigir sér sumarhús í grennd og gleðst í mat og nærveru í tvo sólarhringa. Um hádegisbil á sunnudegi hittast allir í skilnaðarsamveru við Litlatré áður en haldið er heim á leið. Svo var einnig nú.
Fannfergi – snjóföl
Það tók mig nokkurn tíma að grípa lýsingu fréttamannsins, í vikunni sem leið, þegar hann talaði um fannfergið í borginni. Ha, hvað er maðurinn að segja? Hverju er hann að lýsa? Hann kallar snjófölina, sem liggur yfir þessa daga í borginni, fannfergi. Hvaða orð skyldi hann nota um það magn af snjó sem árvisst féll á landinu okkar góða á miðri síðustu öld. Það væri fróðlegt að heyra það.
Háheilagir dagar II
Í framhaldi af pistli 10. desember síðastliðinn. Sjá hér. Á Þorláksmessudag fór Ásta ævinlega upp í Hlaðgerðarkot og undirbjó hýbýlin fyrir jólahátíðina. Þá var jólatré skreytt og ljósum og öðru skrauti komið fyrir. Vistmenn og starfsmenn urðu glaðir í sinni, gengu í lið með Ástu og allir, sem ekki voru veikir, lögðust á eitt til að gera sem best úr hlutunum. Farið var í öll herbergi, setustofu og matsal og komið fyrir skrauti, dúkum og öðru hóflegu skrauti sem minnti á hátíðina.
Háheilagir dagar I
Sál mín og hugur verða gjarnan andlegri á vikunum fyrir jól. Rek ég það til þeirra ára þegar við Ásta veittum Samhjálp hvítasunnumanna forstöðu. Þá helguðum við tilveru okkar skjólstæðingum stofnunarinnar af enn meira afli en á öðrum tímum, nema kannski páskum, sem við ávallt höfum litið sem helgustu hátíð kristninnar. En komum aftur að vikunum fyrir jól.
Góðilmur
Það seytlar lítill lækur, rauðleitur, niður Skógarhlíðina ofan og austan við Sauðhúsin. Það safnast í hann ofan úr Kotbrúninni. Hann er svo lítill að hann getur naumast talist lækur. Vatn sígur í hann úr mýrunum og sumstaðar hafa myndast pyttir. Þeir eru hvorki stórir né djúpir. Það heyrist gutlhljóð þar sem vatnið rennur í pyttina. Stundum heyrist gutla á tveim stöðum í einu. Og lækurinn, sem heitir Djáknalækur, líður áfram í krókum og beygjum og endar að lokum niður í Hrauná.
Söngtrío anno 1954
Gömul ljósmynd kom upp í hendurnar á mér fyrir skömmu við tiltekt í gömlu dóti. Hún er af söngtríói sem stofnað var á Hvanneyri veturinn 1954, í tilefni af 1. des. hátíðinni sem var einskonar árshátíð skólans á þeim árum. Þar tróð tríóið upp og söng nokkur lög, gömul og ný, svo sem: Anna mín með ljósa lokka, / líf og fjör og yndisþokka. Var lagið tileinkað Önnu Hauksdóttur, Jörundssonar, sem starfaði á skólanum þetta árið.
Tvíraddað stef I
Menn sungu um Tondeleyó og dálitla kofann hans fyrir tæpum sextíu árum á bökkum Norðurár í Borgarfirði. Nánar tiltekið á flóðunum frá Svarfhóli og niður að Flóðatanga. Og lagið fór um allt landið og miðin, og stúlkur og drengir í heyskap horfðu með aðdáun á unglingana sem höfðu lært bæði lag og texta og sungu, sum hver dúett. Og maður gat greint dularfullt blik í augum þeirra þegar þau mættust. Og velti rót þess fyrir sér.
Styrjaldarlok 1945
Öll skipin sem voru í höfninni þeyttu þokulúðrana. Bílar flautuðu. Fánar voru dregnir að hún. Fólk hrópaði og segja má að hver einasti maður hafi brosað út að eyrum. Við pollarnir fórum niður að höfn. Mannfjöldi eigraði fram og aftur. Síðdegis og um kvöldið varð svo allt brjálað. Áflog og slagsmál milli hermanna og Íslendinga. Lögreglan beitti kylfum við að skakka leikinn. Fékk ekki rönd við reist. Beitti loks táragasi. Óeirðirnar héldu áfram daginn eftir.
Fluguveiðar
Hún kom upp í huga minn, við fregnir af fyrsta veiðidegi í vötnum, veiðiferð ein sem við feðgarnir fórum í austur að Þingvallavatni, fyrir margt löngu. Pabbi minn og ég. Pabbi var mikill áhugamaður um stangveiði. Hann átti margar stangir af mismunandi gerðum, ótal veiðihjól og ógrynni af fluguboxum og spúnum. Og auðvitað töskur og tilheyrandi til að bera útgerðina í.
Íslensk alþýða
Það var mikil stemning og baráttuandi í fólkinu þegar kröfugangan lagði af stað frá Iðnó í Vonarstræti. Pabbi lét okkur bræðurna bera fána þótt við værum bara litlir strákar og ég varla fánafær. En Steindór bróðir hafði gaman af þessu. Við höfðum heyrt ýmsar sögur af kúgun verkalýðsins en amma okkar, Hreiðarsína Hreiðarsdóttir, hafði verið framarlega í flokki í verkalýðsbaráttunni. Pabbi var einnig ákveðinn verkalýðssinni og fór Lúðrasveitin Svanur, sem hann hafði stofnað, gjarnan fyrir kröfugöngunum á degi verkalýðsins.