Stundum eru svo margar bækur komnar á skrifborðið mitt, heima, að ég neyðist til að endurskoða staflann til að hafa sæmilegt rými fyrir olnbogana. Núna eru þarna tvær bækur eftir William James, The Varieties of Religious Experience og The Will To Believe. Þá er þarna The Sayings of The Jewish Fathers, Íslenska sálfræðibókin, Heilög ritning og Bókin um veginn á íslensku og ensku. Þá eru tvær bækur um indverska matargerð.
Svo eitthvað sé nefnt
Maður finnur fyrir vori. Þetta er þannig dagur. Sunnan þeyr, framan af degi að minnsta kosti, og súld. Fór út í vorið með það eitt í huga. Þegar erindum var lokið gat ég ekki hugsað mér að fara inn í hús strax. Vesenaðist í miðbænum um stund. Þar var talsverð umferð. Gangandi fólk og skelli hlægjandi skólakrakkar. Og svo auðvitað bíl við bíl niður Laugveg og vestur Austurstræti
En víst er ástin til
„Að neita fyrirgefningu og náð, þessu tvennu sem gert hefir lífið þess vert að lifa því, það er líkast því að neita því að ást sé til.” Þessi setning er í Lesbók Moggans í morgun, úr bréfi Ragnars í Smára til Matthíasar ritstjóra fyrir mörgum árum. Ragnar er að tala um Þórberg Þórðarson og skoðanir hans á eilífðarmálum. Verið er að minnast Ragnars, þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans.
Menn muna Ragnar. Hann var svo oft í grennd. Kenndur við smjörlíkisgerðina Smára. Stóð á bak við Halldór Kiljan Laxness og bækur hans og fleiri. Gaf út eftirprentanir af málverkum og sinnti tónlist. Hann lét ekki mikið á sér bera. Kom þó ákveðið í ljós við forsetakosningar eitt árið. Það er önnur saga.
Menn fóru og keyptu sér bækur og bókasöfn í Helgafelli. Biðu ávallt með eftirvæntingu eftir bókum Halldórs Laxness. Komu við á Veghúsastígnum í dagslok á leið heim úr vinnu, keyptu sér bók og tóku að lesa og gleymdu að sofa. En urðu aldrei sáttir við Fjallamjólkina í eftirprentun. Það tókst ekki að eftirprenta ástina.
Kálfinn um Ragnar í Lesbókinni í morgun, ættu allir að lesa. Það er kraftur í greinunum eins og það var kraftur í manninum sem þær fjallar um. Sá kraftur smitar frá sér og gerir manni gott.
Ekkert gera og ekkert vera
Það er nú ekki margt sem hrífur í öllu þessu hafaríi út af bók Hannesar Hólmsteins um Halldór Laxness. Uss, nei. Og með ólíkindum hvað allt þetta fólk sem skipar sér í hóp manna með gáfur og menntun getur látið barnalega og hamast og rembst. Auðvitað hef ég ekki lesið bókina, veit ekki hvort ég geri það nokkurn tímann. Samt hef ég lesið bækur Kiljans í hálfa öld. Með mikilli ánægju og dái sumar þeirra ákaflega.
Kássan hennar Pilar
„„Það eru engir diskar,“ sagði Anselmo. „Notið ykkar eigin hnífa.“ Stúlkan hafði reist fjóra gaffla upp við járnfatið, tindana niður. Þeir átu allir úr fatinu, þöglir, eins og Spánverja er siður. Það var kanína elduð með lauk og grænni papriku og það voru kjúklingabaunir í rauðvínssósunni. Þetta var vel eldað, kanínukjötið laust á beinunum og sósan var lostæti.“
Þú skalt elska
Í bók eftir Sartre sem ég las fyrir tugum ára, hún heitir sennilega „Teningunum kastað“ í íslenskri þýðingu, minnir mig að þemað hafi verið nokkurn veginn þannig að þeir sem elska komist af. Stríðsmaður leitaði óvina í húsi, herbergi eftir herbergi, vopnaður og reiðubúinn að fella sérhvern mann. Í einu herberginu ákváðu karl og kona að elskast á ógnvekjandi stund endalokanna. Þegar stríðsmaðurinn geystist um húsið og kom að herbergi þeirra og leit inn og sá hvað um var að vera, gekk hann framhjá.
Þrjú saman
Einn af þessum dögum fór í að endurpæla í Pælingum Páls Skúlasonar. Kaflinn, „Áhrifamáttur kristninnar” varð mér svo hugleikinn. Ekki síst á þessum helgu dögum trúarársins sem ætíð hafa lyft okkur Ástu dálítið upp fyrir hversdagsleikann. Og þótt við eyddum hluta úr degi til að endurskipuleggja geymsluna í kjallaranum (en það hafði verið á dagskrá frá því að við fluttum, fyrir 11 mánuðum) þá breytti það engu um ánægjuna af textum og anda daganna.
Að hugsa skýrt
„Það verður kannski seint sannað að skýr hugsun leiði til betra lífs en ég hef lengi haft þá trú að nauðsynlegt sé að heimspekingar fari út í samfélagið og tali við fólk, líkt og ég hef gert í starfi mínu meðal fanga, um gildi lífsins og yfirleitt allar þær hugmyndir sem heimspekingar fást við að reyna að skilja.” „… Það eru dæmi þess á meðal þeirra fanga sem ég hef kennt að þeir hafi breytt lífssýn sinni…”
Stormurinn og sólin
Sólin og vindurinn deildu um það hvort þeirra væri sterkara. Þau ákváðu að skera úr um það við fyrsta tækifæri. Þegar maður nokkur, klæddur jakka, gekk niður eftir sveitarvegi sammæltust sólin og vindurinn um að keppa um það hvort þeirra yrði fyrra til að fá manninn til að klæða sig úr jakkanum. Vindurinn byrjaði.
Sígilt og leiftrandi
Straumar sem fara um fólk eru af mismunandi toga. Þegar sagt er straumar er verið að tala um áhrif sem eitt eða annað hefur á fólk. Eitt eða annað. Tek tónlist og texta sem dæmi. Við Ásta hlýddum í gærkvöldi á War Requiem, eftir Benjamín Britten, í Háskólabíói. Það var hrífandi tónlist, hrífandi textar og glæsilegur flutningur. Áhrifin mikilfengleg. Áhrifin.