Sumt má fólk ekki trassa. Gerir það samt. Þannig var með skrifborðið mitt. Lampinn á því dó. Síðan hef ég setið þar og þjakað augun með lestri í rökkri. Og augun hafa tárast af þreytu. Tilveran súrnað. Hafði mig loks af stað og kom þessu í lag. Uppskar þakklát augu.
Enn við Horngluggann
Það var heldur dimmt yfir landinu í morgun. Einnig við Horngluggann, hvar við Ásta ræddum málin eins og svo oft áður. Ljóðakonurnar Þuríður Guðmundsdóttir frá Sámsstöðum og Emily Dickinson eru fyrirferðarmiklar í huganum þessa daga, enda margar bóka þeirra uppi við, ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur. Ég freistaðist til að nefna þær við Horngluggann. Yfir kaffinu. Fékk góðar undirtektir.
Orðin eru hækjur mínar
Hafði hugsað mér að skrifa nokkur orð í tilefni af degi tungunnar. Móðurmálsins. Fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Aftur á móti ætlaði ég ekki að tala um Jónas. Né verk hans. Það eru svo margir sem gera það og miklu, miklu betur en ég. En það er annað skáld sem á þennan sama fæðingardag. Skáld sem sjaldan heyrist nefnt þrátt fyrir ljóð sín og ljóðabækur. Kannski af því að skáldið er kona. Heiti pistilsins er nafn á einu ljóða hennar.
Dýrasaga og greining
Eitt af viðfangsefnum Dagnýjar Kristjánsdóttur í bók sinni, Undirstraumar, er smásaga Ástu Sigurðardóttur, Dýrasaga. Það var mér mikil opinberun að fara í gegnum greiningu Dagnýjar á smásögunni og kemur þar fleira en eitt til. Ásta var fædd 1930 og því þekktu menn á mínum aldri talsvert til hennar. Hún var áberandi á sinn sérstaka hátt og kallaði yfir sig fordóma og slúður í öllum regnbogans litum. Og svo var hún fyrirsæta og rithöfundur.
Lesbókin pirrar
Alltaf hlakka ég til Lesbókarinnar. Hún er laugardagsmorgna ánægja mín. Næst á eftir kaffiklukkustundinni með Ástu við Horngluggann sem ætíð er efst á listanum. Það er samt aldrei þannig að allt efni í Lesbókinni falli mér, enda ekki hægt að ætlast til þess. En sumt les ég tvisvar og jafnvel þrisvar. Og gjarnan með blýanti. Í morgun voru tvö atriði sem pirruðu mig. Hið fyrra er myndin af Bush, á blaðsíðu 7. Ótrúlegt hvað mér leiddist að sjá hana þarna.
Haust
Það var komið haust. Gul og rauð laufblöð féllu af greinum trjánna, eitt og eitt, og liðu mjúklega til jarðar. Stöku spör stakk nefi sínu í laufið og leitaði ætis. Maður nálgaðist. Hann gekk hægum skrefum í átt að styttu af ljóðskáldi og settist á bekk. Spörinn gaf frá sér hvellt hljóð og flaug upp. Maðurinn lagði gamla snjáða skólatösku við hlið sér. Gróf hendur sínar djúpt í frakkavasana og horfði út eftir stígnum sem lá niður að lítilli tjörn. Hann var alvörugefinn á svip. Eftir alllanga stund hófst samtal:
Rogastans
Merkilegt orð rogastans. Mig rak í eitt slíkt fyrr í dag. Er ekki enn búinn að ná mér að fullu eftir höggið. Þetta hendir mig gjarnan þegar ég álpast til að sökkva mér í fræðibækur sem ekki eru hannaðar fyrir venjulegt fólk. Fræðimenn virðast fæstir hafa hæfileika til að búa efni sitt í aðgengilegt form fyrir slíka. Eða þá að þeir miða efnistökin við aðra fræðimenn einvörðungu.
Áskorun til bókmenntafólks
Birta hugans er köld
Hún batt enda á líf sitt með því að stinga höfðinu inn í gasofninn í eldhúsinu á meðan börn hennar sváfu á hæðinni fyrir ofan.. Kannski var verknaðurinn angistarfullt hróp á hjálp. Örvæntingaróp eins og svo margra. En hjálpin barst henni ekki. Hún lét lífið. Aðeins þrítug að aldri. Mikilhæf manneskja og veik. Sylvia Plath. Hún var fædd 27. október 1932.
Tyllidagar á landsfundi
Stundum hef ég leitt hugann að því, tala af langri reynslu, hvað stjórnmálamönnum er gjarnt til, á tyllidögum, að bæta við ræður sínar málsgreinum um málaflokka sem þeir vita að höfðu verið útundan á liðnum tíma. Má nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að allir stjórnmálaflokkar geri slík mál að baráttumálum í aðdraganda kosninga. Með því höfða þeir til hópanna sem þeir vita að nutu ekki fulls réttlætis, í von um að hæna atkvæði þeirra að.
Eftir eldinn
„Ég get staðist allt nema freistingar.“ Í ævisögu Oscars Wildes segir höfundur hennar, Hesketh Pearson; „Ég ætla fyrst og fremst að leggja áherslu á kímni hans og gáska, því að það eru höfuðeinkenni Wildes, að minni hyggju, en ekki píslargangan.“ Þarna staldraði ég við. Orð eins og þessi leysa úr læðingi hugleiðingar um viðhorf fólks til lífsins. Í nútímanum er eins og allt eigi að vera skemmtilegt, hressandi og vekja hlátur. Áreynslulaust, alvörulaust án sársauka og þjáningar. En er lífið þannig í eðli sínu?