Það er hér um bil sama hvaða fjölmiðil fólk sækir fréttir í.
Allt sem sagt er snýst um gróða, hagnað og svindl.
Gróða og græðgi og græðgi og gróða.
Sagan endurtekur sig.
Sagan um gullkálfinn.
Allir dönsuðu í kringum hann.
Steyptan Gullkálfinn.
Og þeir sögðu:
„Þetta er Guð þinn…“
„Og fólkið var orðið taumlaust…“
Aldraður verkamaður horfir á.
Aldraður verkamaður undrar sig.
Gerir „Faðir vorið“ að besta vini sínum.
Annar aldraður verkamaður gerir
kríur vestur á nesi að vinum sínum.
Þeir hafa ekki skilning á Gullkálfinum.
Öldruðu verkamennirnir.
Hafa ekki skilning á græðgisbakteríunni.
Né fólkinu sem ræktar hana í hjartanu.
Ræktar hana í sálu sinni og hug.
Græðgisbakteríuna.
Né heldur fólkinu sem þiggur hundraðföld
laun aldraðra verkamanna
fyrir að gráta fyrir elskhuga
Gullkálfsins.
Svona er það í dag.
Svona var það í fornöld.
Og verður.
Þar til allt brennur.
HUGLEIÐING VERKAMANNS VII
NIETZSCHE eða NÍTSÉ
Frú Ásta sagði mér þessa ágætu sögu af bróður sínum,
séra Ólafi Oddi (1943- 2005), sem seinna varð prestur í Keflavík við góðan orðstír. Hann var fimm ára þegar hann úti í garði við hús fjölskyldunnar, á Skeggjagötu, gekk um og söng fullum hálsi og af hjartans einlægni, Ástarfaðir himinhæða og Ó, Jesú bróðir besti. Hafði nágrannakona kennt honum sálmana og dregur frú Ásta þá ályktun að þar hafi trúnni verið sáð í huga bróður síns.
Séra Ólafur sagði mér síðar að þegar Nietzsche var kenndur í Guðfræðideild Háskóla Íslands hafi hann upplifað andlegar þrengingar, farið út úr tíma og skokkað þrisvar sinnum kringum skólann og farið með Faðir vorið aftur og aftur.
Þetta kom í huga minn í gærkvöldi þegar ég tók fram bók Nítsés, Handan góðs og ills. Eignaðist hana á útgáfuárinu, 1994, og las. Ákvað nú að endurlesa kaflann Um trúmál, bls. 155. Ýmsar undirstrikanir voru þar frá fyrri lestri. Nú vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En eftir allnokkra íhugun, reyndar talsverða, fékk ég samúð með höfundinum.
Velti fyrir mér hvort þýðandinn, Arthúr Björgvin Bollason, maður sem sagt er um að tali betri þýsku en Þjóðverjar, væri nógu nákvæmur þegar hann valdi íslensk orð í stað þeirra þýsku. En að lesa þennan kafla Nietzsches er eins og að ganga á glerbrotum, finna þau skerast upp í iljarnar.
Plato komst að þeirri niðurstöðu að elskan, góðið sjálft, væri efst í samlífi manna og brenndi bækur sínar, skáldverk og leikrit, sem þó voru í hávegum höfð. Og Díótóma gaf elskunni hæstu einkunn í samtali við Sókrates. Descartes, þrátt fyrir sínar efasemdir um allt, hugsaði ekki síður svipað og Kierkegaard. Góðir höfundar.
Það er athygli vert að lesa skoðanir Nietzsches á trúmálum. Viðhorf hans eru einhvern veginn mannfjandsamleg og þykir mér ekki hæfa heimspekingi. Heimspekingur, finnst mér, að ætti fyrst og síðast að unna mannkyni. Auðvelda því lífið en ekki að strá glerbrotum undir iljar þess.
Alltaf þykir mér meistari minn frá Nasaret ofar og æðri en margir prinsar heimspekinnar. Á látlausan hátt sagði hann: „Elska skaltu“ og hann gekk um á meðal minnimáttar til að
uppörva þá.
GEF HARMI RÖDD
Við, frú Ásta, lukum jólagjafakortinu nýlega. Fengum þessa stórmerkilegu bók LÍKAMINN GEYMIR ALLT, eftir Besser Van Der Kolk.
Þetta er mikil bók sem ekki verður gleypt á einu kvöldi eins og léttmetið sem flæðir yfir allt.
Að venju hóf ég samlífið við bókina með þukli og strokum. Hún hvorki létt á höndum, liðlega 500 síður, né í huga. Eins og venjulega byrjaði ég á því að skoða atriðisorðaskrána til að sjá hvort vinir mínir einhverjir væru þar. Þegar ég fann William James á kvað ég að bókin félli mér.
En það sem mig langaði að nefna er sú skemmtilega aðferð höfundar af byrja marga kaflana með tilvitnunum í aðra fræðimenn og skáld. Fyrst greip mig setning Williams Shakespeare, úr Makbeð:
„Gef harmi rödd, sé rómlaus sorgin mesta, neyðir hvísl hennar hjartað til að bresta.“ (Þýð.. Helgi Hálfdanarson)
Þetta bergmálaði strax biblíuorðið: ,,Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég…“
,,Mesta uppgötvun minnar kynslóðar er að manneskjur geta breytt lífi sínu með því að breyta viðhorfum sínum.“ William James og aftur: „Maðurinn hefur jafn mörg félagsleg sjálf og einstaklingarnir sem þekkja hann.“
Það vekur alltaf athygli mína þegar til mín berast fræðirit, að þar er tilnefndur fjöldinn allur af fræðimönnum margra kynslóða. Í þessari bók finn ég ekki nafn Plató né nafn Jesú frá Nasaret. Það gerir bókina verðminni í mínum huga, þó það að sjálfsögðu geri bókinni ekkert mein.
Það var þó Jesús frá Nasaret sem bjargaði lífi mínu með sínum mannelskandi anda og milljónum annarra í gegnum aldirnar og sú reynsla verður aldrei þögguð.
Shakespeare orðar þetta yndislega: „GEF HARMI RÖDD…“
Og Biblían: „MEÐAN ÉG ÞAGÐI TÆRÐUST BEIN MÍN..“
Þetta segir vikusálin mín í dag.
COGITO OG VERKAMAÐURINN
Það hefði verið ánægjulegt að fá að sitja í tíma hjá Cogito manninnum René Descartes og hlusta á hann tala. Eftir minnimáttartilfinninguna hefði svo verið hægt að, í huganum að minnsta kosti, læða að honum einni og einni barnalegri spurningu um Hugleiðingarnar.
Descartes er nokkuð dökkur á myndinni sem ég hef af honum og ábúðarmikill. Ekki veit ég hvort hann er lágvaxinn eða hávaxinn en andlitið á honum á myndinni eykur ekki vesalings verkamanni kjark til að spyrja væri hann í kennslustofunni. En það er ánægjulegt að lesa og hugleiða Hugleiðingar hans. Verulega.
Þorsteinn Gylfason skrifar langan inngang að lærdómsritinu. Þar rak ég tærnar oft í. Aftur og aftur er ég honum ósammála. Þrátt fyrir hans miklu heimspekiþekkingu, sem ég dáist að, hagga skoðanir hans ekki mínum niðurstöðum um lífið og trúna á Guð og Orðið sem varð hold. Ég held nefnilega að sjálfin Þorsteins hindri hann eins og svo margt fólk sem fjallar um trúmál. Sjálfin þeirra segja gjarnan hingað og ekki lengra.
En lengra þarf að fara. Og vegurinn þangað er mjór og fáir þeir sem finna hann. Því miður. En frelsarinn sagði einmitt: Ég er vegurinn. Við gætum spurt og ættum að spyrja: Hvaða Ég? Það er einn af leyndardómunum. Er ekki svo? Í upphafi var Orðið, segir . Margir kannast við það. Liggur þá ekki beint við að hugsa sér að Orðið sé vegurinn. Orðið sem varð hold, Jesús. Og margir hnjóta um það.
Mikið vildi ég að fleiri finndu veginn þann. Að hugsun og hugleiðingar fleiri næðu að tileinka sér auðmýkt og lítillæti og opnuðu með því veginn til þess guðsríkis sem býr innra með hverjum einasta manni. Þá væri minna um morð í Úkraínu og þjófnaði á bönkum.
Þetta segir vikusálin mín í dag.
STURLUN ll
STURLUN ll
„Við störfum í myrkri – við gerum hvað við getum – við gefum það sem við eigum […] Afgangurinn er sturlun listarinnar.“
Henry James: The Middle Years.
Hugur minn er svo fullur af gleði í dag. Helsta orsök þess eru kærir höfundar sem búa í hillunum mínum. Þetta eru svo flottir menn, djúpvitrir menn sem gleðja okkur litlu karlana á grynningunum. Þar sem við höfum buslað í svo mörg ár.
Fyrir mér varð í gær Fyrsta hugleiðing Descartes: Um það sem dregið verður í efa. Og þar segir hann: „Í dag, létti ég því af mér öllum áhyggjum, tryggði mér ákjósanlegt næði, er einn og út af fyrir mig, og hyggst snúa mér að því að rífa til grunna allar fyrri skoðanir mínar, í fyllstu alvöru og eins og mér sjálfum sýnist.“
Ég lagði frá mér bókina, tók setninguna inn í mig, tók bókina aftur og las setninguna, og lét hana líða um litla sæta heilabúið í mér um stund. Svo fann ég gleðina byrja að streyma. Þetta var svo notaleg gleði. Höfundur setningarinn, René Descartes, fæddur 1596, er því löngu, löngu látinn. Og samt ekki látinn, því hugsanir hans á bókum munu lifa og lifa með mannkyni.
Það gera líka Mósebækur Biblíunnar. Þær lifa og lifa. Sem og það sem Jóhannes Zebedeusson skrifaði um Jesúm Krist. Sú bók, eða spjall, mun lifa og lifa. En það er gaman fyrir gamlan verkamann að lesa hugleiðingar Descartes-ar. Láta hugleiðingar hans örva mann til að hugleiða. Kerfi okkar eru svo ólík. Hans kerfi er heimspeki, mitt kerfi er Jesútrú. Í hans kerfi er efi um alla hluti en í mínu kerfi er fullvissa.
Ég enda þetta í dag, þótt ég gæti skrifa tíu þúsund orð um efnið, og vitna í Qoheleth, sem margar góðar hugleiðingar eru kenndar við:
„Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta. Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.
Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gert þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.“ Pd. 7.
FÁTÆKIR Í ANDA
Þegar ég las í þriðja sinn frásögnina af því þegar Pontícíanus, Afiríkumaðurinn, kom í heimsókn til Ágústínusar og tók að segja honum frá einsetumanninum Antóníusi, sem var nafntogaður maður meðal þjóna Guðs, kom í ljós að Ágústínus hafði aldrei heyrt hans getið, né heldur Alypínus félagi hans.
,,Antóníus þessi var egypskur einsetumaður, d. 356, 105 ára gamall. Einseta hans og meinlætalíf örvaði mjög þær heimsflótta og meinlætahugsjónir, sem ruddu sér til rúms í kirkjunni á 4. öld.“
Síðar segir frá tveim hirðmönnum keisara sem voru á göngu ásamt honum í görðum nokkrum nærri borgarmúrum. Einn gekk með keisaranum hinir tveir sér. Á göngu sinni rákust þessir félagar tveir á kofa einn. „Höfðust þar við einhverjir þjónar þínir, fátækir í anda,“ eins og segir á bókinni.
Þar fundu þeir bók er ævi Antóníusar var skrá á. Annar þeirra fór að lesa hana, varð hrifinn og upptendraður. Og við lesturinn tók hann að hugleiða að byrja slíkt líf, hafna heimslegri sýslan og þjóna Guði.
Og fylltur af heilögum kærleika og heilnæmri blygðun hvessti hann augun á vin sinn og sagði: „Segðu mér eitt: Hvers leitum við?“ Og án þess að orðlengja það tóku þeir ákvörðun á stundinni, höfnuðu ábyrgðarmiklum stöðum sínum við keisaraembættið og gerðust vinir Guðs þegar á þeirri stundu.
Þetta er mögnuð lesning. Og einsetumaðurinn og hinir „fátæku í anda“ eru sérlega eftirminnilegir og áhrif þeirra þá og síðar. Og nú. Antóníus þessi, meinlætamaður, minnir á hve vegir Guðs eru órannsakanlegir. Og hvað hinir „fátæku í anda“ eru ekki eins fátækir í anda eins og umheimurinn vill meina. Og gott er að mega flokkast með þeim.
Meginefni þessara skrifa er úr Játningum Ágústínusar, áttundu bók, 6 kafla.
Skrifað Guði til dýrðar.
Minnisverður maður
Það var fyrir liðlega þrjátíu árum. Ég var þá framkvæmdastjóri Bókaforlags Fíladelfíu um hríð. Forlagið hafði aðstöðu í Fíladelfíukirkjunni í Hátúni 2 í Reykjavík. Var vinnustaður minn þar. Kirkjan, og ekki síður skrifstofurnar, voru einskonar miðja hvítasunnuhreyfingarinnar á landinu og þar komu margir við. Voru það jafnt Reykvíkingar sem og safnaðarfólk utan af landi.
Hitti ég því og kynntist svo til öllum íslenskum hvítasunnumönnum þess tíma. Nokkrir eru mér minnisstæðari en aðrir og þeir skýrastir í huga mínum sem hógværð og auðmýkt prýddu öðrum fremur. Einn þeirra sem ógleymanlegur er er Ólafur Guðmundsson frá Bakkafirði. Hann lést 7. febrúar s.l. Í Morgunblaðinu í gær er tilkynning frá fjölskyldu hans um að útför hans hafi farið fram í kyrrþey að hans ósk.
Á þeim árum, þegar ég starfaði í forlaginu, kom Ólafur í sína fyrstu heimsókn í kirkjuna í Hátúni 2. Það kom í minn hlut að taka á móti honum. Þetta var skömmu fyrir hádegi. Ég hafði aldrei hitt manninn áður, aðeins heyrt af honum.Upplifði ég þarna einstaka hlýju og kærleika þegar hann heilsaði mér. Hann faðmaði mig innilega og sagði bróðir kær og talaði um Drottin eins og sameiginlegan hjúp okkar beggja.
Hann spurði hvort ég vildi sýna honum salinn, sem þá var neðri salur kirkjunnar. Það var auðsótt. Opnaði ég dyr salarins og bauð honum að ganga inn á undan mér. Þegar hann var kominn svo sem skref inn fyrir dyrnar tók hann húfuna ofan og andvarpaði. „Drottinn minn og Guð minn.“ Síðan fór hann að bekkjaröð og kraup á hnén og hneigði sig og fór með bæn. Ég var svo gripinn af framkomu mannsins og fágætum anda að ég kraup við hlið hans og bað með honum. Að bæninni lokinni faðmaði hann mig og sagði með tár í augum. „Mikill er Drottinn.“
Þessi stund og þessi framkoma, heilög stund öðrum ólík, er stöðugt skýr og lifandi í huga mínum sem hin fullkomna mynd af einlægum vini Krists.
Blessa ég minningu þessa auðmjúka manns.
All react
GUÐI TIL DÝRÐAR, SAGÐI BACH.
Fyrst og fremst þakka ég Guði. Guði föður á himninum. Hann gaf son sinn Jesúm Krist mönnum. Þá þakka ég Kristi. Af einlægu heilu hjarta fyrir hans óendanlegu mannelsku. Mannelskandi anda. Anda sem leysti mig. Frelsaði mig. Þar næst þakka ég söfnuðinum í Kirkjulækjarkoti fyrir að taka á móti mér, löskuðum, með sundur kramið hjarta.
Í Kotinu tóku þeir á móti mér feðgarnir Guðni Markússon, Guðni Guðnason, Grétar Guðnason og Magnús Guðnason. Að baki þeim stóðu konur þeirra, Ingigerður, Jónína, Þóra og Hrefna. Mannelskandi andi þeirra allra umvafði mig. Andi Jesú Krists. Og þeir töluðu um frelsarann eins og hann væri þarna hjá okkur. Allt var það tal mjúklegt. Allt var það tal græðandi. Jesús, sögðu þeir, og lögðu hendur yfir mig. Jesús, miskunna þú.
Í samkomuhúsinu þeirra, á næstu dögum, töluðu þeir um Jesúm. Þar var enginn Lúter, engin háskóla guðfræði, aðeins Jesús frá Nasaret. Það lét sérkennilega í eyrum. Tók vikur að sættast við nýtt tungutak. Keppt var að frelsun. Jesús er frelsari. Fyrirgefur og frelsar. Eftir samkomur var boðið í kaffi í hús Guðna yngri. Jóna kona hans þjónaði til borðs. Samræður allar fóru fram eins og Jesús sæti einnig við borðið. Það var einlægt. Trú þeirra og einlægni hrifu.
Alltaf var frú Ásta með mér. Hélt í hendi mína og studdi mig. Alltaf. Nokkrum vikum síðar, eftir samræður og samkomur, samkomur þar sem sungið var um hinn Eldgamla kross, BrunnInn blóðs og prédikað frá Jesaja: ,,Komið, eigumst lög við, segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll…“ Og Sigurmundur Einarsson, eldri, bættist í hópinn. Við áttumst lög við. Ég tuðaði við hann af afli. Þetta voru magnaðir tímar. Ég andæfði. Beitti fyrir mig rifhöfundunum mínum. Kaldhæðni. Þessum svokölluðu gáfum manna.
En guðspjöllin miða ekki á gáfur manna. Ritningin miðar á hina lægra settu, hina auðmjúku, hina brotnu. Til að frelsa þá. Og eftir þras við Sigurmund nokkrar vikur spurði ég hann í drambi mínu: ,,Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum sjálfur.“ Eftir umhugsun svaraði Sigurmundur : ,,Þessu get ég ekki svarað.“ Það var þá sem ég tók ofan og beygði mig. Við krupum. Tveir. Sigurmundur sagði: ,,Fyrst bið ég, svo tekur þú við.“ Þetta var ekki auðvelt. Biðja upphátt við annan mann. En mér tókst það eftir talsvert hik og baráttu.
Þetta var ógurleg stund. Undursamleg og ógurleg stund. Andinn fyllti mig. Allt mitt innra braust út. Ég skalf og nötraði og hrópaði og kveinaði. Og múrinn brast. ,,Jesús minn, Jesús minn, Jesús, Jesús Kristur, miskunnaðu mér.“ Líf mitt hefur ekki verið samt síðan.
Og í dag er Hvítasunnudagur. Sú blessaða andlega hátíð. Þegar andinn fyllti hjörtu lærisveinanna.
Skrifað Guði til dýrðar.
Við áttum svo magnað samtal um ritninguna.
Við áttum svo magnað samtal um ritninguna.
ER SVÍNAKJÖT Í ÞESSU?
Við fórum í lítilsháttar bíltúr í morgun, hjónin. Áttum eitt erindi. Sinntum þrem. Frú Ásta ók eins og oftast síðari árin. Mér gafst því góður tími til að skima og skoða. Þögul ókum við Sæbraut, fram hjá Hörpu og því næst í gegnum ljótasta hluta borgarinnar, ég endurtek, ljótasta hluta borgarinna og varð að orði. „Fullþroskaður ljótleiki. Verr verður ekki gert.“ En nú
snýst heili ráðamanna um bragga í Skerjafirði.