Það voru samt greinar um Derrida, látinn, sem áttu hug minn í gær. Lesbók Moggans gerði honum ágæt skil um helgina þar sem ekki færri en átta greinar, eða pistlar, eru birtir um hann. Nú er það ekki svo að ég hafi mikið vit á Derrida. Ekki fremur en öðrum frægum mönnum sem kenndir eru við heimsspeki. Get og þess vegna tekið undir með blaðamanninum sem vitnaði um för sína á fyrirlestur hjá meistaranum og kvaðst hafa skilið minnst af því sem hann sagði.
Kuldaboli
Ók þarna um í morgun snemma. Fremur kuldalegt. Hinkraði smástund utan við Stjórnarráðið. Vildi fá fólk á myndina. Það var ekkert fólk að fá. Og einungis ein glansbifreið í ráðherrastæðinu. Væntanlega nýi forsætisráðherrann. Hlýtur að vera spennandi að hafa allt þetta vald. Og Davíð hvergi nærri til að setja fingurna í málin. Er ekki frá því að á Alþingi séu menn djarfari í tali, að Davíð fjarstöddum.
Dauðar sálir
Þekkir þú Tsjitsjikov? Á nú varla von á því. En ég hef verið að endurlesa sumar af elskulegustu bókunum mínum frá fyrra lífi. Það er dálítið eins og að upplifa sokkabandsárin sín að nýju. Þá var oft svo stórkostlegt að vera til. Auðvitað verður blossinn aldrei eins skarpur á efri árunum, en sumt af dulúðinni vekur sömu viðbrögð. Þegar fregnir bárust af því á haustdögum að fjármagnseigendur og aðrir unnendur peninga, vildu gjarnan kaupa stærstu bújarðir landsins og bæta þeim í eignasafn sitt, þá ákvað ég að lesa bók Gogols, Dauðar sálir, einu sinni enn.
Hjartastaður
Morgunbænin í útvarpinu er vinsæl hjá okkur hjónunum. Við hlustum á hana flesta morgna. Hún hefst yfirleitt á öðrum kaffibolla. Í morgun fór séra Auður Eir með trúarorðin. Ég seigi trúarorðin, því að af mæli hennar merkist að hún á hlutdeild í þeim Guði sem veitir blessun þeim sem vilja þiggja hana af honum. Það er eins og hún tali af hjarta fram. Og einmitt þannig orðaði Goethe þetta í stórverkinu Faust: „En hjörtum fer aldrei orð á milli, sem ekki er runnið úr hjartastað.“
Forseti okkar allra
Alþingi kom saman í gær. Ekki fór það fram hjá neinum. Fjölmiðlafólk drekkur í sig orð og athafnir alþingismannanna. Og blæs upp. Og út. Þingfréttir fá alltof langan tíma og fréttatímar verða afspyrnu leiðinlegir. Það væri ekki úr vegi að útvarp og sjónvörp hefðu sérstakan tíma fyrir þingfréttir. Til dæmis eins og gert er með veðurfréttir. Eða dánartilkynningar.
Í tilefni dagsins
Í tilefni dagsins fékk ég mér göngu um miðbæ Reykjavíkur. Hóf ferðina um tíuleytið. Árdegis. Veðrið var blítt. Umvafði sál og huga. Vék mér að útlendum hjónum á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Þau grúfðu sig yfir kort af Reykjavík. „Are you lost?” spurði ég. Þau tóku mér vel. Börnin þeirra, unglingar, fylgdust með. Þau ætluðu í Ráðhúsið. Sjálfur fór ég í hraðbanka Spron.
Einskonar bros
Það er sagt að gamlir karlar dvelji gjarnan í minningum fyrri ára lífs síns. Þessi svokölluðu manndómsár. Og að brúnin á þeim lyftist nokkuð þegar þeir fá færi á að endurlifa eitthvað af þeim ævintýrum. Eitt slíkt gafst síðastliðinn mánudag. Þá var réttað í Þverárrétt í Borgarfirði. Réttardagur var gjarnan hátíðisdagur fyrr á dögum. Þá komu saman þúsundir fjár af fjalli og hundruð manna úr byggð. Stemningin sérstök og ekki annarstaðar að finna. Glaðværð og tilhlökkun í ungum sem öldnum.
Há?
Það er þannig með rakarann minn, (getur maður sagt minn? ). Nei. Ég byrja aftur. Það er þannig með rakarann sem klippir mig þessi árin, – ég segi þessi árin því að mér hefur ekki haldist vel á rökörum. Sumir sögðu að ég væri með erfiðari viðskiptavinum og hættu í iðninni. Kona, rakari, sem mér líkaði svo ágætlega við af því að hún klippti mig þegjandi, hætti að klippa eftir tæpt ár og gekk í hjálparsveitir erlendis. Einn bilaði á geði og varð óvinnufær. Annar hætti og ákvað að láta eiginkonu sína vinna fyrir sér.
Brynhildur Piaf
Edith Gassion. Spörfuglinn í París. Við fórum í Þjóðleikhúsið og sáum þessa rómuðu sýningu. Hún er, án þess að nokkuð sé ýkt, stórkostleg skemmtun. Að minnsta kosti fyrir þá sem eru á líkum aldri og við. Þá sem ólust upp við söng þessa smáfugls og fregnir af sorg hennar og sigrum. Tregarödd, tregatónlist og tregatextar. Og Brynhildur. Þvílík frammistaða. Þvílík snilld.
Hvítur hestur
Á Grímsstaðaholtinu í gamla daga bjó að stærstum hluta venjulegt fólk. Þegar ég segi gamla daga þá á ég við árin fyrir miðja síðustu öld. Með orðinu venjulegt fólk á ég við óbreyttar manneskjur, alþýðufólk sem vann við venjuleg störf og barðist í bökkum við að komast af. Við Þrastargötuna, en á Holtinu báru svo til allar götur fuglanöfn, bjuggu í einu húsinu hjón sem nutu sérstakrar virðingar foreldra minna, en það voru þau Helga þvottakona og Sigurður maður hennar, sem var smiður. Muni ég það rétt.