Maður brýnir mann, segir í helgri bók. Víst er það svo. Hef ég notið þess við fátæklega bloggtilburði mína að fá hvatningu frá ýmsum vingjarnlegum lesendum pistlanna og að sjálfsögðu einnig vina minna og félaga. Helsta hvatningin um tæknimál og þróun heimasíðunnar hefur komið frá Brynjólfi Ólasyni sem er ákafur áhugamaður um heimasíðugerð og aðrar lausnir í slíkum málum. Kann ég ekki einu sinni að nafngreina fyrirbærin.
BWV 537
Sumir dagar láta í té meiri ánægju en aðrir dagar. Það munu flestir menn geta vitnað um. Þeir sem verst hafa það mundu kannski vilja segja að sumir dagar væru ánægjuminni en aðrir. Hvað um það. Mér var úthlutað yndislegum kafla í dag. Reyndar fleiri en einum. En BWV 537 stóð upp úr. Víst er dagurinn ekki allur svo að mögulegt er að fleiri góðilmi beri fyrir sál mína áður en lýkur.
Hvar á elskan upptök sín?
Þeir sem áttu stundir við sjávarmál og upplifðu krafta sjávarfalla, flóðs og fjöru, eiga vafalítið ljúfar minningar um stundina á milli falla, þessa stuttu sem hefst eftir að útfalli lýkur og aðfall hefst. Hún er kölluð liggjandi og eða ögurstund. Í góðu veðri er stundin sú dularfull og býr yfir leyndardómi, sérkennilega hljóðlát og undarlega kyrr, þar til kraftar veraldar hefja að toga hafið að landi að nýju.
Glæsilegur einstaklingur
Allt í einu kom hún fram í sviðsljósið. Gáfuð, menntuð og glæsilegur persónuleiki. Kristín Ingólfsdóttir. Aldrei hafði ég heyrt af henni fyrr en hún bauð sig fram til rektors við Háskóla Íslands. Þar keppti hún við hóp karla. Í seinni umferð, þegar tvö stóðu eftir, sá ég kastljósþátt með henni og keppinaut hennar. Yfirburðir hennar voru algerir. Hógværð og hyggni á móti yfirborðslegum framboðsfundatilburðum stjórnmálamanns. Við hjónin sögðum í vinahópi að hana myndum við kjósa hefðum við rétt til þess.
Breytileg átt á Efstaleiti
Það er dálítið þægilegt að geta horft og hlustað á fréttir og dægurþras í fjölmiðlum án þess að láta titring þeirra ergja sig. Á mínum aldri er þetta hægt því það láta, hvort sem er, allir sér í léttu rúmi liggja hvaða skoðanir karlar á úreldingarhlunnum hafa á málunum. Ég hef þó hlustað á Ríkisútvarpið í meira en sextíu ár. Er alinn upp við Pétur Pétursson, Helga Hjörvar, Jónas Þorbergsson, Vilhjálm Þ. Jón Múla og fleiri ógleymanlega persónuleika.
Nostalgía
Minning um pabba minn vitjar mín ævinlega á afmælisdegi hans. Sá er í dag. Pabbi var fæddur 1907. Hann lést langt um aldur fram, aðeins fimmtíu og fjögurra ára gamall. Þetta var flinkur og flottur maður. Hann hafði iðnaðarréttindi í þrem fögum. Í fyrsta lagi gaslögnum, þá í skósmíði og loks pípulögnum. Það var sérlega ánægjulegt að horfa á hendur hans þegar hann var að vinna. Á margar minningar um það.
Betri eru tveir en einn
Það fylgir því sérstök tilfinning að fara á fætur árla föstudaginn langa og ganga fáklæddur út á verönd við lítið frístundahús. Úti í mörkinni, alllangt frá öðrum hýbýlum. Og horfa yfir móana og til fjalla og finna í lykt andvarans að það er enn vetur, þótt veðurblíðan sé ótrúlega mannvæn. Og sakna söngsveitar mófuglanna sem lífga hverja þúfu og hvert barð þegar vorið víkur fyrir sumrinu. En sá tími er enn ekki kominn þótt landsmet hita marsmánaðar hafi verið slegið í sveitinni.
Mögnuð vika
Hún er mögnuð þessi vika. Mögnuð fyrir páskaeggjaframleiðendur. Mögnuð fyrir verslun með gjafir til ferminga. Og mat. Þá er hún mögnuð fyrir fátækt fólk sem á ekki fyrir mat. Það les á pakkana í hillum verslana. Leggur frá sér þá dýrari og velur ódýrari. Eða sleppir þeim. Þetta sést í verslunum. Eldri borgarar og ungar einstæðar mæður. Og börnin þeirra horfa með sársauka á miljónir páskaeggja. Vita af reynslu að þau fá bara númer eitt eða tvö.
Borgarhátíð
Borgarhátíðir einkennast af miklum mannfjölda. Fólk streymir um göturnar syngjandi, hlægjandi og fagnandi. Fagnaðarstemningin hrífur alla og hópsálin fyllist af sælukennd og ærslum. Allt í einu heyrist af þessum sérkennilega náunga. Hann sé að koma á hátíðina til að taka þátt. Og mannfjöldinn snýr sér að honum. Skemmtilegt að fá tilbreytingu. Syngjandi og sveiflandi greinum fer fólkið á móti honum.
Konan, sem kyndir hjarta mitt
Davíð Stefánsson er eitt af mínum ljúflingsskáldum. Drengur gladdist ég yfir ljóðum hans. Las enda sum þeirra aftur og aftur. Og les þau enn. Upplifi gjarnan svipuð áhrif og forðum og finn þau líða um innri manninn. Þrátt fyrir aldurinn. Minn. Orð hans falla svo haglega hvert að öðru, eins og listasmíð sem fær mann til að strjúka, ósjálfrátt, með fingurgómunum um samskeyti. Og í vefnaði orðanna leynist ósegjanlegur þráður og tilfinning.