Ársskýrslur geta verið tímafrekar. Hef eiginlega ekki séð fram úr samantekt á tölum, uppsetningu taflna og greinargerða um niðurstöður síðasta árs. Lítil höfuð og grannir heilar þurfa lengri tíma í slíka hluti en gáfað fólk. En nú sér fyrir endann á öllu því. Og þá hefjast átök við að endurlífga þau svæði í heilanum þar sem önnur efni eru vistuð.
Fórum í gær, við Ásta, og sáum Kaldaljós, kvikmynd Hilmars Oddssonar, eftir sögu Vigdísar Grímsdóttur. Það verður að segjast alveg eins og er, myndin er mjög góð og ætti fólk ekki að láta hana fara fram hjá sér. Myndatakan grípur áhorfandann strax á fyrsta myndskeiðinu, þegar regndroparnir skella á stéttinni þröngri nærmynd.
Síðan kemur leikurinn, Ingvar alltaf jafn einlægur og fótógen. Og börnin hans leysa sín verkefni óaðfinnanlega. Þegar sálarstíflan sem myndin snýst um leysist upp, situr áhorfandinn með kökk í hálsinum. Og fólk sat kyrrt eftir að myndinni lauk. Líklega til að bíða eftir því að kökkurinn hyrfi. Góð kvikmynd. Ekki sleppa henni.