Fékk á tilfinninguna um síðustu helgi að fiðrildin væru að leggja ungu birkihríslurnar okkar Ástu, í Litlatré, undir sig og orma sína. Mér er mjög annt um hríslurnar og fer gjarnan á milli þeirra og spjalla við þær. Oftast taka þær mér vel. En um síðustu helgi var búið að vefja laufblöðum utan um litlu gráu ormakvikindin á mörgum hríslum. Og ekkert eitur á svæðinu.
Þess vegna fór ég aftur uppeftir á föstudag til að heyja stríð við ormana. Ásta átti ekki heimangengt svo að ég var einn á ferð. Kom við í Garðheimum og keypti Permasect. Úðunardælu átti ég fyrir. Í Garðheimum var talsverð ös og margar konur að kaupa fullar körfur af stjúpum og mold og allskyns tilheyrandi atriðum. Það voru langar biðraðir við kassana.
Afgreiðslan gekk fremur hægt og ég óþolinmóður með eitt lítið glas af Permasecti. Næst á eftir mér í röðinni var kona og var hún einungis með 500 millilítra úðabrúsa. Flestir aðrir voru með yfirfullar innkaupakerrur og einstaka með tvær. Mér varð á að segja við konuna: „Það eru ekki stór innkaupin okkar miðað við aðra hér.“ Þá skellihló hún, lyfti brúsanum og sagði: „Ég er með lús.“ Og ég gat bætt við: „Og ég er með orma.“
Eins og stundum gerist þegar maður hittir skemmtilegt fólk þá hætti ég að vera óþolinmóður og eftir Garðheima ók ég sem leið lá upp í Borgarfjörð. Þar var NA 2-4 m/s, heiðskírt, hiti +15°C. Um kvöldið úðaði ég birkið. Það var ekkert að sjá á alaskavíðinum. Svo ákvað ég að gista og las um vinina Thomas Hudson, Roger og Eddy sem voru að ljúka máltíð:
„Lunch was excellent. The steak was browned outside and striped by the grill. A knive slipped through the outer part and inside the meat was tender and juicy. They all dipped up juice from their plates and put it on the mashed potatoes and the juice made a lake in the creamy whiteness. The lima beans, cooked in butter, were firm; the cabbage lettuce was crisp and cold and the grapefruit was chilly cold.“