„Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér; sérhver maður er brot meginlandsins, hluti veraldar; ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, engu síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri; dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu; spyr þú aldrei hverjum klukkan glymur; hún glymur þér.“
Tilvitnunin hér fyrir ofan, eftir John Donne, er framan við hina ægifögru skáldsögu Ernest Hemingway´s, Hverjum klukkan glymur, eins og hún hét í fyrstu á íslensku. Síðar var nafni hennar breytt í Klukkan kallar. Það var eftir sýningar á hinni vinsælu kvikmynd sem gerð var eftir bókinni, sem Gary Cooper og Ingrid Bergmann léku aðalhlutverkin í.
Bókin hefst á þessum orðum, í þýðingu Stefáns Bjarman: ,,Hann lá á grúfu innan um brúnar barrnálar skógarbotnsins og hvíldi hökuna á krosslögðum handleggjunum. Hátt yfir höfði hans þaut vindurinn í furunni. Aflíðandi halli var á fjallshlíðinni þar sem hann lá, en neðar var hún snarbrött og hann gat séð veginn liðast gengum lágskarðið eins og dökka olíugljáandi rák.“
Árið 1952 var ég sumarstrákur á Gilsbakka í Hvítársíðu. Þetta var annað sumarið mitt þar af fjórum. Á Gilsbakka var bókasafn sveitarinnar varðveitt. Þangað komu nýjar bækur. Þetta árið kom fyrrnefnd bók Hemingway´s í safnið. Ég fékk að lesa hana næstur á eftir Hafsteini Austmann, sem las hana næstur á eftir Magnúsi bóndasyni. Hafsteinn var / er tveim árum eldri en ég.
Nafnið á pistlinum, „Verbum perfectum: sinceritas,“ er fengið úr Söngvunum frá Písa, eftir Ezra Pound. Ég fékk bókina í jólagjöf. Hún er ekki auðveld. Maður mjakar sér samt í gegnum hana. En það er fróðlegt að lesa hvað hetjan Hemingway segir um Pound í einni af bókum sínum.
Meira um það fljótlega.