Það var veruleg stórhátíðarstund, síðastliðinn föstudag, hjá okkur Ástu þegar við fórum í Hallgrímskirkju og hlýddum á Óratóríuna Elía, eftir Mendelssohn. Þarna sungu fjórir einsöngvarar, sópran, alt, tenór og bassi og Módettukór Hallgrímskirkju og Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Hörður Áskelsson stjórnaði. Verkið er samið við Biblíutextana sem fjalla um spámanninn Elía og var flutningurinn aldeilis stórkostlegur.
Það sem jók mjög við hamingju okkar var að kirkjugestir fengu afhenta textabók, þar sem allur sunginn texti var prentaður, bæði á þýsku og íslensku. Gátum við því fylgst nákvæmlega með hverju atriði og nutum þess af öllu hjarta. Þekkjum frásöguna vel og áttum þarna afar ánægjulega kvöldstund með textum sem við unnum.
Spámaðurinn Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað var nefnilega einn af þessum hetjum sem stórkostlegar frásögur fara af. „Hann var maður sama eðlis og vér,” segir Jakob í sínu bréfi, 5:17, og fyrri Konungabókin geymir þessar tindrandi frásögur af manninum, frásögur sem grípa lesandann og heilla með töfrum sínum. Á einum stað segir frá honum í hetjuham, á öðrum stað hvar hann yfirkominn af ótta og skelfingu skreið inn í helli í felur.
Það sem olli Elía skelfingu var að drottningin Jesebel, (sem við höfum rætt um í pistli), Mundu steinarnir tala? hafði heitið því að drepa Elía. Hann hafði skorað á hólm vald hennar og Akabs konungs og farið mikinn. En sú frásaga af honum, sem fyrst heillaði mig, var um það þegar sonur ekkjunnar í Sarefta dó. Um það segir:
„Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína. Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: „Drottinn, Guð minn, sendu líf þessa drengs aftur í brjóst hans.” Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði. En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans.” 1: Kon.17.
Kynni mín af Elía hófust á þeim árum þegar hugur, hugsun og andleg tilvera mín voru í uppnámi þegar Guð hóf að endurbyggja persónuleika minn eftir harkalega brotlendingu. Mild og græðandi snerting anda Krists hafði endurvakið það ríki sem innra með mér bjó, og býr með öllum mönnum, og ég hafði týnt og misst sjónar á í veltingi basls og fávisku. Þyrstur eftir svalandi orðum hans teigaði ég, í öllum frístundum, ritningarstaði og las um hetjur Guðs, bergnuminn. Elía var einmitt einn af þeim. Og þytur af þýðum blæ.