Veistu hvað ég hef leitað lengi? Nei. Veistu að hverju ég hef leitað svona lengi? Nei. Veistu hvað það er að leita? Það brennur á. Það brennur á og kemur alltaf aftur og aftur. En ef þú vilt vera með í hópnum þá lætur þú eins og þú hafir fundið það. Það, sem þú veist ekki einu sinni hvort þú varst að leita að. Eða hvort þú yfir höfuð varst að leita.
En flestir vilja vera í hópi. Kór. Hópast saman og kallast á í kór. Það er auðveldast. Fólk vill að lífið sé einfalt. En ég er búinn að leita allt mitt líf. Á sjötugu dýpi. Og engin dugga. Og það versnar. Þegar ég var smábarn héldu pabbi og mamma að þau hefðu svar handa mér. Það var ekki rétt hjá þeim. Svo blés hann af öllum áttum. Hring eftir hring. Vindurinn, sem enginn vissi hvaðan kom né hvert fór. Var það ekki það sem Qohelet átti við?
En það var ákaflega fallegt uppi í Borgarfirði í morgun. Mikil lifandis ósköp var fagurt þar. Uppi í Borgarfirði í morgun. Og gott að staldra þar við og á í litla stund. Yfir nótt. Og hvíla við hlýjan barm konunnar. Hennar sem alltaf stappaði stálinu. Svo kemur morgundagurinn auðvitað. Og þá heldur þetta áfram.