Það fór nú þannig á þessum fyrstu erfiðu tíu dögum, sem að baki eru, að bækur og bókmenntir hópuðust að mér með elsku og örlæti og urðu mín mesta huggun fyrir utan óendanlega umhyggju og elsku eiginkonunnar. Að sjálfsögðu. Ekkert tekur henni fram. En bækurnar, með þeim komu hinir ýmsu höfundar til sögunnar og persónur sagnanna og settust á rúmgaflinn og ræddu málin. Það var elskulegt samfélag.
Það eru afskaplega mörg orð í bók Zizek´s, Óraplágunni. Við fyrsta yfirlit sýndist mér að hann hefði átt að lesa Njálu tvisvar áður en hann skrifaði bókina, til að knappa stílinn dálítið. Ekki veit ég alveg hvernig honum hefði vegnað á öldum kálfskinna. En við að grauta í bókinni og lesa m.a. um jóker og gosa, kom Hannes Hólmsteinn upp í hugann. Kannski var ég með hitavellu daginn þann.
Þá var þarna Aþanasíus með Um holdgun Orðsins, en hún náði ekki í gegnum óþolið. Undir áhrifum af útvarpsþáttum um William Faulkner dró ég fram The Portable Faulkner sem ég hef átt í hillunum um langt árabil og sökkti mér í Spotted Horses, eða Deplóttir hestar, og fylgdist spenntur með gaurnum frá Texas reyna að fá heimamenn til að bjóða í þá.
En það er eins og himininn vilji hafa áhrif á hvað maður les og á miðjum degi í miðri viku var mér færð glæný bók alla leið inn í rúm. Þetta er bók eftir rithöfundinn, prestinn og doktorinn, Sigurjón Árna Eyjólfsson, Tilvist, trú og tilgangur. Bókin fjallar um helstu kenningar um tilvist Guðs, allt frá guðssönnunum Anselms á elleftu öld til guðsafneitunar Nietzsche, eins og segir á kápu.
Það var svo í morgun sem Ásta mín ók mér niður í bókabúð í Smáralind þar sem við fjárfestum í Stephen Crane, Hið rauða tákn hugprýðinnar, í þýðingu Atla Magnússonar. Hún kostaði kr.1920. Stephen Crane gerðist vinur okkar fyrir allmörgum árum. Gat ég hans í pistli um árið.
Bækur eru gott samfélag og maður er þakklátur fyrir höfunda og þýðendur sem útbúa þær í hendurnar á okkur einfaldari sálum.