Það var með nokkru hiki að ég hóf að glugga í bókina um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hef tekið hana fram í nokkur skipti frá jólum, strokið hana, flett og skoðað myndir. En hef ekki haft mig upp í að lesa. Hef verið að velta því fyrir mér hvaða tregðulögmál það séu sem hindra.
Ljóðin hans hafa verið hluti af lífinu. Hef lesið þau aftur og aftur. Vitnað í þau aftur og aftur. Hafði þau í hávegum ásamt öðrum ljóðum mikilla skálda. Lokaði gjarnan að mér þegar sálin hafði þörf fyrir það og tók fram einhverja bók. Gjarnan Davíðs. Og las. Og hreifst. Aftur og aftur. Árum saman. Við önnur tækifæri var fjölskyldan með. Það voru ánægjustundir.
Skáldjöfurinn Davíð Stefánsson hefur verið eins og andi umhverfis ljóðin og inni í þeim. Nálægur en ekki áþreifanlegur. Skáldaandinn. Þetta ólýsanlega fyrirbæri sem gerir mönnum kleift að skilja fuglamál. Hver skilur fuglamál?
,,Sá einn er skáld, sem skilur fuglamál,
og skærast hljómar það í barnsins sál.
Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.
Hann syngur líf í smiðjumó og tré.“
Davíð Stefánsson. Snert hörpu mína.
Frans frá Assisi talaði við fugla og þeir við hann. 🙂