Fyrst kom ég í Netto á Salavegi. Leitaði í hillunum. Fann ekki. Spurði verslunarstjórann. Hann leitaði i hillunum. Fann ekki. „Því miður á ég það ekki í augnablikinu.“ Næst lá leiðin í Bónus á Smáratorgi. Gáði í hillurnar. Fann ekki. Leitaði að þessari elskulegu konu sem virðist vera verkstjóri í búðinni. „Komdu með mér,“ sagði hún.
Glaður í bragði fylgdi ég henni. Hún skimaði um hillurnar. Fann ekki. „Líklega erum við ekki með þessa vöru,“ sagði hún brosmild. Þá lá leiðin í Hagkaup í Smáralind. Rannsakaði hillu eftir hillu. Fann ekki. Leitaði uppi starfsmann, konu, hún var langt í burtu. „Sjálfsagt að koma með þér,“ sagði hún og gekk rösklega. Vissi hvar þetta átti að vera. En þar stóð á rauðum miða. Varan ekki til.
„Því miður,“ sagði þessa elskulega kona, „reyndu í Nóatúni, uppi.“ „Uppi? Já, uppi.“ Ég hélt af stað þangað. Fór í rúllustiga. Fór að dósahillunum. Pírði augun, leiðbeindi þeim með fingrunum. Fann ekki. Fór að kjötborðinu. Ávarpaði greindarlegan afgreiðslumann með svarta kokkahúfu. „Nei, vinur minn,“ sagði hann „þetta hefur ekki fengist mánuðum saman. Heildsalarnir standa sig ekki.“
Þessu næst lá leiðin í Sparbúðina í Bæjarlind. Eldklár maður var við kassann og þegar ég spurði hann gekk hann rösklega inn eftir búðinni en sagði á leiðinni: „Ég held þetta sé ekki til. Það var komið fram yfir síðasta dag og ég skilaði því.“ Svo talaði hann um áhugalausa heildsala. Á einum ganginum var stúlka frá heildsala að lesa í hillurnar með einskonar strikamerkjaapparati.
Eldklári maðurinn tók af henni vörukladdann og sagði: „Hún er nú frá þeim þessi.“ Síðan fletti hann kladdanum og fann síðuna sem mynd af vörunni var á. Stúlkan ákvað að hringja í skrifstofuna og þar fékk hún það svar að þetta hefði ekki verið til í nokkra mánuði. Ekkert vitað hvenær sending kæmi. Svo lagði hún hönd blíðlega á handlegg minn og brosti og sagði: „Því miður. En ég lofa því að þegar sending kemur skal ég fylla á hérna fyrst.“
Eiginlega var ég guggnaður en datt í hug að koma við í StraxNettó í Hvörfunum. Þar fann ég þrjár dósir. Kátur í bragði tók ég þær og gekk hratt að kassanum. Las á dósirnar. Best fyrir júlí 2007. „Fæ ég þær á hálfvirði?“ spurði ég stúlkubarn sem var á kassanum. „Ég má ekkert svoleiðis.“ „En máttu selja þær?“ „Ég bara veit það ekki,“ sagði stúlkubarnið. „Ég verð að fá þær,“ sagði ég og hún las á strikamerkið og seldi mér dósirnar.
Langar þig að vita hvaða vara er svona nauðsynleg? Það eru Ansjósur. Ansjósur í olíu. Og hvað ég geri við þær. Ég nota þær í spaghetti gleðikonunnar.
Gaman að þessu Arnbjörn.
Takk fyrir innskotið.
Þegar ég las þetta um Ansjósurnar hjá þér, datt mér í hug skemmtilegt atvik þegar ég var á ferðalagi á Florida með dætrum mínum fyrir rúmum áratug og þær vildu endilega fara á Pitsa Hött og ætluðu að panta skinku og ananas en pöntuðu skinku og ansjósur,og gátu ekki borðað þær. Og svo borðuðu þær pitsuna mína sem ég pantaði með hakki og pepparoni. Ég nota þetta alltaf á þær þegar þær eru að gera grín að enskunni minni!!!!! Kveðja.