Horfði á þátt Egils, Kiljuna, á netinu í dag. Er of kvöldsvæfur fyrir þætti eftir klukkan tíu á kvöldin. Þátturinn var góður. Þar er af ýmsu að taka. Kolbrún sagði að Doris Lessing ætti Nóbelsverðlaunin skilið en hefði ábyggilega ekkert við alla peningana að gera. Það er vitaskuld aukaatriði. Kolbrún endurlas Grasið syngur, síðustu daga, og hreifst að nýju.
Þarna kom einnig fram glæsileg kona, Sigfríður Gunnlaugsdóttir, sem ég hef ekki heyrt nefnda fyrr. Það var einkar ánægjulegt að heyra hana tala um Doris Lessing og bækur hennar sem hún virtist kunna góð skil á sem og sögu og þróun rithöfundarins. Gott viðtal. Bragi Kristjónsson, alltaf góður, lét sína málfiðlu tala fuglamál eins og Ingimundur fiðla gerði með sínu hljóðfæri.
Þá var ekki komið að tómum kofanum hjá Matthíasi Jóhannessen, frekar en fyrri daginn. Og það verður að hrósa Agli fyrir það að hann greip svo til aldrei frammí, sem ekki er algengt í þáttum hans. Fyrir vikið heyrðist betur inn í Matthías og er það hið besta mál. Hann er mikill þekkingar- og reynslubrunnur og kann margt um sjógang þjóðarinnar á síðustu öld.
Svo er þessi stóri dagur á morgun. Þá kemur á markaðinn ný Biblía. Heilög ritning. Það er mikill viðburður í huga margra. Ys og þys nútímans mun samt ekki endilega meta það svo. Telja það naumast þess vert að hlusta eftir. En öðrum er það góðmeti, ilmur elskunnar og næring fyrir „hjartaverði“. Það munu þó ekki allir verða sáttir við útkomu nýrrar þýðingar. Fjöllum nánar um þau mál við hentugleika.