Hún var svo elskuleg að spyrja, hún Hrönn mín kær, hvernig hefði verið í réttunum. Hún vissi að ég hef farið í réttir síðustu árin og ætlaði einnig núna. Ég mátti til með að segja henni svolítið frá því og sendi henni eftirfarandi tölvupóst:
Já, það var gaman að koma í Þverárrétt. Þar hitti ég fólk sem ég hef kallað fólkið mitt, fólk sem er í rauninni fólkið hennar Ástu. Ég var einmitt að skima og skoða bændurna og þeirra lið í réttunum og komst að því að þeir eru ekki margir sem voru þarna þegar ég var ungur maður. Sumt yngra fólkið þóttist ég þó þekkja af svip foreldra þess, eða taldi mér trú um það.
Sem dæmi, þá sá ég þarna konu um fertugt. Hún hefur verið í réttunum þessi síðustu ár sem ég hef farið og verið áberandi dugleg að draga. Ég þóttist vita frá hvaða bæ hún væri og af hvaða kyni. Nokkuð augljóst fyrir glöggan mann. Þar sem konan var komin með alvöru myndavél, Canon eitthvað heilmikið, ákvað ég að hafa myndavélina sem ástæðu til að heilsa henni og hefja spjall. Myndavélafólk vill gjarnan uppörva hvert annað og spjalla um græjurnar sínar.
Ég gekk til konunnar og hóf samtalið við réttarvegginn utan við einn dilkinn og sagði:
,,Góðan dag. Þú ert komin með alvöru myndavél sé ég.“
„Ja, ja,“ sagði konan, ,,ég er týsk, kem fra Hamborgarsýsla og sendi fólki mitt myndir á netið svo það fá líka að sjá hvernig við gera hér. Ja.“