Liðin helgi, þrátt fyrir norðaustan þræsing, lét í té af örlæti margskonar glaðning bæði fyrir auga og hjarta. Auðvitað nemum við lífið meira og minna með augunum og í gegnum þau þreifar sálin á umhverfinu, tré, runnum og fólki. Og þar sem við gerðum haustlitum helgarinnar svolítil skil í pistli í gær þá er ekki nema sanngjarnt að ræða oturlítið um nýgróður í dag.
Það var sem sé á laugardag sem við, um morguninn, fórum á vit haustlita gróðursins í næsta nágrenni við Litlatré. Sjá hér. Um kaffileytið sama dag fylltist litli kofinn okkar svo af nýgróðri. Yndislegu smáfólki, afkomendum okkar Ástu minnar. Það er dálítil saga að segja frá því en í fáum dráttum er hún þannig:
Eins og oft kemur fram í pistlum mínum þá á samlíf okkar Ástu upphaf að rekja til Gilsbakka í Hvítársíðu, hvar við hittumst fyrst árið 1951. Þá börn í sveit. Átta árum síðar kom í heiminn drengurinn Jón Gils, en seinna nafn hans vísar einmitt til Gilsbakka. Mörg orð mætti hafa um þau mál. En aftur til nútímans. Frumburður Jóns Gils, Rögnvaldur Óli, sem nú er þrítugur maður, kom í heimsókn til okkar á laugardag með dætur sínar þrjár til að hitta langafa og langömmu.
Þegar Steini í Hátúni, verktaki og vélamaður, drakk með okkur kaffi, kynnti ég börnin fyrir honum og sagði: „Þetta eru langafabörnin mín.“ Hann leit á stúlkurnar, síðan á mig, þá á Ástu, aftur á mig og sagði svo: „Ertu orðinn svona svakalega gamall?“ „Nei,“ sagði ég, „ég er ekkert gamall, það eru bara þessir titlar sem verka eins og lýsingar á gömlu fólki.“ Svo bauð ég honum að fá sér aðra kexköku.
En stúlkurnar í bleiku litunum létu sér fátt um aldur fólks finnast, fallegar, blíðar og ástríkar og stoltar af hvolpinum Gloríu sem pabbi þeirra á. Og það var glatt á hjallanum. Við hittum þessi börn ekki oft. Því veldur að mæður þeirra og pabbi hafa ekki valið að búa saman eins og oft vill verða. Því ánægjulegra er að hittast og fá tækifæri til að kynnast lítilsháttar.
Þessi laugardagur er eftirminnilegur fyrir örlæti tilverunnar og litadýrð í sköpun Guðs, ægifagrir haustlitir og yndislegur nýgróður.