Þetta var á föstudaginn. Síðastliðinn. Fyrir morgunkaffi. Við vorum á leið í Borgarfjörðinn, hjónin. Hún hafði unnið daginn af sér. Allt var tilbúið til brottferðar og kerran tengd aftan í gamla bílinn okkar. Ætlunin var að taka fimm poka af staurasteypu með í sveitina. Til þess að fá hana þurftum við í Byko. Hún var uppseld í versluninni svo að okkur var vísað í timbursöluna.
Við höfum verslað talsvert í Byko í þrjátíu ár. Allt sem þurfti fyrir Samhjálp hvítasunnumanna á meðan við störfuðum þar. Bæði fyrir Hlaðgerðarkot og félagsmiðstöðina í Hverfisgötu 42. Eftir starfslok hjá Samhjálp höfum við nuddað upp litlu frístundahúsi uppi í Borgarfirði og ætíð keypt efni í Byko. Þykjumst því vera kunnug staðháttum og aðferðum þar.
Ókum því sem leið liggur inn um hlið eitt í timbursölunni, – en þar hagar þannig til að akbraut er inn eftir skálanum miðjum og bílastæði við hlið hennar vinstra megin. Á bílastæðunum stöðva menn og sækja sér vöru, aka síðan áfram yfir í næsta skála og þar út. Þannig hefur þetta verið um langt árabil og oftast nær árekstralaust. Að minnsta kosti fyrir kunnuga. Þó hefur hent að lestun hefur verið örðug og þá hafa menn orðið að bíða meðan málið var leyst. Nú voru bílar í öllum stæðunum.
Sem við nú ökum inn í skála eitt kom starfsmaður Bykos, piltur, á móti okkur og bauð aðstoð. Við greindum frá. Hann gekk þá á undan okkur inn eftir brautinni þar til hann kom að rekkum til hliðar og gekk inn á milli þeirra. Ég stöðvaði bílinn við hlið piltsins og skaust út og fylgdi honum. Hann beygði sig niður og tók tvo poka af staurasteypu og setti í kerruna. Ég tók einn poka, Ásta tók einn og loks tók pilturinn þann fimmta. Þetta tók tvær mínútur eða minna.
Þegar ég setti pokann í kerruna kom maður í fínum fötum og byrjaði að hella sér yfir mig fullum hálsi. Hverskonar andskotans ósvífni það væri að stöðva svona á miðri brautinni og loka gegnumkeyrslunni. Hverskonar helvítis frekja og hverskonar djöfulsins dóni ég geti verið. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Þaðan af síður hvernig ég ætti að bregða við.
Mér varð þó á að svara manntetrinu sem dansaði í kringum mig eins og hann gengi á glóðum. „Maður minn, þetta tekur bara tvær mínútur,“ sagði ég.
„Mér er andskotans sama, þú átt ekkert með að láta eins og þú sért einn í heiminum. Þú ert bara illa siðaður dóni,“ hvæsti maðurinn og dró hvergi af.
„Ég hef nú upplifað það að þurfa að bíða hálfa klukkustund hér í skálanum án þess að láta það eftir mér að rífa kjaft,“ sagði ég.
„Það kemur þessu máli ekkert,“ sagði náunginn og kom upp að mér. Ég sagði:
„Þetta er búið. Við erum farin. Sjáðu bara, tvær mínútur. Er nokkur ástaða til að æsa sig?“
Pilturinn sem afgreiddi okkur skrifaði afgreiðsluseðil. Púkinn í mér kallaði til piltsins:
„Skrifaðu hratt væni minn svo við eyðileggjum ekki daginn fyrir manngreyinu.“ Pilturinn skrifaði tvö orð, vörunúmer og magn. Það tók sekúndur. Þegar ég síðan snaraði mér inn í gamla bílinn minn hrópar sá æsti á mig:
„Þú ættir helvítis dóninn þinn að fá þér bók um almenna mannasiði.“ Svo steig hann inn í glæsilega jeppann sinn og setti í gang. Við Ásta ókum út.
Ég er enn að velta því fyrir mér hvort maðurinn, hugsanlega, eigi þessa bók sem hann nefndi.
Ég efa að hann eigi bókina,en hann á greinilega bágt og líður eflaust ekki vel. Kveðja.