Þau heyrast eiginlega aldrei. Það er alveg sama á hvaða stjórnmálamenn maður hlustar. Það er eins og þau hafi aldrei verið til. Það er talað um umhverfi. Sá konu nýlega, konu sem er í framboði, fórna höndum og fella tár yfir týndri þúfu á austurlandi. Þúfu sem drukknaði. Þá hrapaði konan um áttatíu stig í huga mínum. Eins og ég hafði verið skotin í konunni.
En týndu orðin heyrast aldrei. Og fólkið sem týndu orðin eru um heyrist ekki nefnt. Hvað er komið yfir stjórnmálamennina? Á hvaða leið eru þeir?
Hvaða orð ég er að tala um? Auðvitað verkamenn. Verkamenn, verkamenn, verkamenn. Karla og konur. Konur og karla. Fólkið sem ber þjóðfélagið uppi. Dettur nokkrum heilvita manni í hug að hús yrðu byggð, eða virkjanir reistar, eða vegir lagðir, eða göng gerð, fiskur veiddur, fiskur skorinn og fiskur pakkaður og fiskur frystur, eða götur sópaðar, eða skipt um dekk á bílunum, ef ekki væru verkamenn? Nei. Aldeilis ekki.
Það er því ráð að bæta þessum týndu orðum inn í umræðuna síðustu dagana fyrir kosningar? Þó ekki væri nema til þess að við skynjuðum að frambjóðendur vissu hvaða gildi verkamenn, konur og karlar, hafa.
Og hafa rétt til að kjósa laugardaginn 12. maí.