Margir hafa tjáð sig um þetta svokallaða Jónínu mál Bjartmars, eða ríkisborgaramál tilvonandi tengdadóttur hennar. Mál sem er í raun ekkert mál, bara hversdagsleg saga af fólki sem fer með völd. Réttlætisskilningur þess nær eingöngu yfir óbreytta. Ekki breytta. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða. Á öllum sviðum valds.
Það eru miklu mikilvægari mál á dagskrá um þessar mundir en það hvort stúlkutetur fær ríkisborgararétt eða ekki. Þau mál eru t.d. um börn sem þegar hafa ríkisborgararétt en fá ekki þá ummönnun og aðhlynningu sem þau þurfa og eiga rétt á, til að ná fram kostum sínum.
Nýlega var sagt frá 15 ára dreng sem fangelsaður var fyrir ofbeldi. Síðast fréttist af honum innlögðum á BUGL. Og fólk andar léttar. Hvergi hefur saga hans, uppeldi, staða foreldra og stuðningur honum veittur verið tíundaður. Enda fjölskyldan vafalaust óbreytt fólk.
Þá berast fregnir norðan úr Skagafirði um að stærsti hluti barna sem þar eru vistuð á meðferðarheimili, vegna félagslegrar vanhæfni og utangarðslífernis, hverfi fljótlega í sama farið eftir vistun og meðferð. Af því að sveitastjórnir sinna ekki nauðsynlegri eftirmeðferð.
Vitað er að þessum utangarðsbörnum fjölgar með hverju ári. Og þeim mun stöðugt fjölga. Til verður stór hópur ungmenna sem ekki tekst að samlagast þjóðfélaginu. Mjög líklega mörg hundruð. Börn án framtíðar.
Þessi glötuðu ungmenni eru að sjálfsögðu óbreytt. Þau eiga sér ekki marga málsvara. Þau eru dæmd til að vera utangarðs. Og hvernig er búið að slíkum á þessu ríkasta landi okkar? Varla til að státa af.
Það vantar málsvara. Fólkið sem sífellt er að tjá sig virðist finnast meira til um sjálft sig ef það þvaðrar um kuskið á hvítflibbunum. Vill ekki vita af sársauka annarra. Og er þar með að brjóta sömu jafnræðisreglu og það ásakar aðra um að gera.
Ýmislegt til í þessum skrifum. Legg til að þú komir þeim í Morgunblaðið, þó ekki nema til þess að vita hvort einhverjir taki þau til sín eða hvaða viðbrögð þau vekja. Þetta er málefni sem fær litla sem enga umfjöllun.