Nú höfum við fengið forsmekkinn af kosningaþvaðri í sjónvarpi í tvö kvöld. Allt ber það tal að sama brunni. Stjórnmálamennirnir koma fram fyrir þjóðina ábúðarmiklir og segja frá því hvað þeir ætli að gera margt gott fyrir borgarana og bæta hag þeirra verulega. Og þeir treysta því að áheyrendur séu búnir að gleyma loforðunum sem gefin voru fyrir síðustu kosningar og kosningarnar þar á undan og hafa verið svikin eða frestað.
Í alltof stórum skömmtum fjölmiðlanna, mældum neytendum án tillits til neytenda, verða stjórnmálamenn berir að því að hafa talað eitt og gert annað. Berir að því að hafa einhverja dulda hagsmuni í fyrsta sæti, þrátt fyrir öll góðu orðin sögð við „háttvirta kjósendur“, í snertimjúkum forleik kosninga. Fáir bera af öðrum í því.
Í grein eftir Jón Sveinbjörnsson prófessor, fyrir allmörgum árum, birtir hann niðurstöðu Pauls Corcoran:
„Málfar nútíma stjórnmála er ekki notað til þess að sannfæra menn heldur til þess að hafa stjórn á þeim, ekki til þess að örva hugsun heldur til þess að koma í veg fyrir hana, ekki til þess að veita upplýsingar heldur til þess að leyna þeim eða villa um fyrir mönnum, ekki til þess að vekja athygli manna heldur til þess að dreifa henni og kæfa hana.“
Samkvæmt þessu má ætla að stjórnmál hafi sitt eigið tungumál þar sem orðin þýði allt annað en þau gera í mannheimi, og mennirnir sem tala það séu alltaf að segja allt annað en þeir eru að segja. Það er því ekki einfalt fyrir venjulegt fólk að finna frambjóðendur sem hafa reynst trúverðugir á ferli sínum og lagt sig fram um að tala minna og standa við orð sín.
Það er alltof mikið framboð af kjaftaskúmum í flokkunum, kjaftaskúmum sem eru ekkert nema kjaftaskúmar og munu aldrei gera gagn.
Satt er það. Þarna er líklega ástæðan komin fyrir því hvers vegna ég get ekki með nokkru móti skilið stjórnmál – þau eru ekki flutt á íslensku.