Bjartsýnin fyllir hvert íslenskt hjarta. Einnig okkar og því renndum við í Borgarfjörð á föstudag eftir vinnu. Það leit heldur vel út, örlítið snjófjúk, næstum logn og hitinn um núll gráður. Vegurinn var um það bil auður alla leið og við fundum fyrir gamalkunnum tilhlökkunar tilfinningum. Á laugardag snjóaði frameftir degi í logni og þægilegheitum en síðdegis snérist vindáttin í norður, 8 til 10 m/s og hitastigið í mínus 7°C.
Síðan þá lá hann á með stífri norðanátt og éljum svo að ekki sá út úr augum og í dag var óljóst hvort við kæmumst út af svæðinu út á þjóðveg. Lýsingin á Holtavörðuheiðarveðrinu (útidyralykillinn!!) átti við í vindstrengnum sem hélt okkur föstum. Það var því enginn möguleiki á útivist (græt það ekki) og kviðum því að við yrðum að biðja Pál bónda, sem reyndar virðist hafa ánægju af að greiða götu fólks, um að hjálpa okkur út af svæðinu.
Til þess kom þó ekki. Gamli bíllinn kom okkur yfir snjóhöftin með atrennu og tilhlaupi þó ekki sæist út úr augum. Litlu neðar í héraðinu var veðrið á allt annan hátt og fréttum við að strengurinn hafi verið verstur á okkar svæði. Við lokum augum fyrir því og horfum til vorsins, sem ekki kom í dag, með tilhlökkun. Það var annars svolítið merkilegt í gær, þá settist hrafn nokkur á húsþakið hjá okkur og krunkaði dágóða stund. Ásta fann út að hann hafi verið að aðvara okkur.
Hann er aftur á móti í ónáð hjá mér því hann étur upp unga mófuglanna stórvina minna á sumrin og ég fór út á pall og sagði honum það. Fullum hálsi. „Beinið þitt,“ sagði ég og þá flug hann krunkandi í vestur. Vafalaust er hann kominn með egg í laupinn sinn uppi í Sámsstaðagili. Veðrið gerði það að verkum að ég lauk við Mírgorod eftir Gogol. Meira um það síðar.
sko! vorið er komið núna :]