Góðir dagar í Glasgow og Edinborg III

Það er sérstök stemning í Prince Square. Maður gengur þangað inn af Buchanan – street um mjóan gang. Inn af honum tekur við óvenjulegur markaður (mall) og veitingahús. Byggingin, afar falleg, er á þrem hæðum og byggð í hring umhverfis allstórt torg, mosaik lagt, sem er á neðsta hæðinni. Veitingahús og verslanir á hverri hæð á svölum umhverfis opna svæðið. Glerþak yfir. Það eru stigar niður af götuhæðinni þangað sem torgið er og upp af götuhæðinni til þriðju hæðarinnar. Einnig lyfta klædd gleri.

Fólk situr í öllum veitingahúsunum. Fólk af öllum gerðum. Miðaldra konur saman í litlum hópum eða tvær og þrjár saman. Foreldrar með börn, ungar mæður með börn, ömmur með börn.. Ungar stúlkur saman, karl og kona saman, litlir hópar af blönduðum aldri. Allskyns fólk. Börnin leika sér frjáls á kringlóttu torginu. Það er ánægjulegt að horfa á fólk. Fylgjast með því og láta sér þykja vænt um það. Þótt maður kunni engin deili á því. Lífið er fólk.

Sumir gestanna hafa pantað sér rjómatertusneið og kakó, aðrir hvítvínsglas. Sumir kaffi. Eða rósavín. Margir bjórglas. Við völdum okkur borð. Kusum að vera til hlés svo við gætum fylgst með hinum. Settumst. Snertum hendur hvors annars. Pöntuðum veigar. Ljúfar veigar. Horfðumst í augu. Skál fyrir afmælisbarninu. Skál. Á næsta borði var dálítill hópur. Þrjár konur, karl, stúlka og drengur. Þau voru kát og frjálsleg og töluðu ákaflega. Og skellihlógu. Ég fiskaði myndavélina upp úr töskunni.

Þau tóku mér vel þegar ég lyfti hendinni og sagði hæ, og benti á myndavélina. Konan sem talaði ákafast ýtti við hinum og vakti athygli á mér. Allir brostu. „Thank you,“ sagði ég svo.

Þannig leið hluti úr deginum og við ræddum næsta kafla verunnar í borginni og héldum áfram að fylgjast með fólkinu og börnunum og rifjuðum upp þau árin þegar börnin okkar voru miðja alheimsins. Það fylgir eflaust aldrinum.

Heyrumst.

2 svör við “Góðir dagar í Glasgow og Edinborg III”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.