Janúar hefur silast áfram í bókalestri. Jólabækur bárust umfram væntingar og framkallaði rausn gefenda klökkva í gömlu og slitnu hjarta. Í gær tók ég plastið utan af einni sem hefur beðið eftir að að henni kæmi. Sú heitir Í reiðuleysi í París og London og er eftir þann kúnstuga karl Eric Arthur Blair, sem fólk þekkir sem rithöfundinn George Orwell.
Þar sem ég reikna með að flestir kannist við manninn af bókinni og kvikmyndinni Animal Farm, eða Dýrabær, og 1984, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, sem sló í gegn, er ég ekkert að fjalla um hann hér. Man ég eftir miklum umræðum um þá bók þegar hún kom út á Íslandi um miðja síðustu öld. Þótti hún gefa í meira lagi dökka mynd af framtíðinni. En Í reiðuleysi í París og London lofar góðu og tekur mann með sér strax á fyrstu síðunum.
Bókaveislan okkar Ástu, sem hófst í nóvemberlok, með Matthíasi og Ólafíu, hefur staðið linnulaust síðan. Og er ekki séð fyrir endann á henni enn. Um liðna helgi, stödd í Litlatré á bökkum Hvítár í Borgarfirði, lásum við bæði af afli. Ég lauk við Theresu. Hafði gengið fremur illa að tengjast henni en eftir miðja bók opnaðist hún og rann fram og skilur eftir sig hugleiðingar um götuhorn í París þar sem sögupersónan „hló með sjálfri sér eins og sú sem sæl er.“ væntanlega búin að ná því takmarki að „vera hún sjálf,“ eins og Jean Azévédo hafði orðað það margoft.
Þá lauk ég einnig við Um sársauka annarra, eftir Susan Sontag. Sú bók krefur lesandann um að skipta um stellingu hugarfarsins og taka þátt í djöfulæði styrjalda, kúgun og mannvonsku valdsmanna í hverju heimshorni á hverri tíð. Og hún deilir hart á fréttamennsku í ljósmyndum og sjónvarpi sem stöðugt dælir inn í hverja einustu fjölskyldu örstuttum myndbrotum af skelfingu, limlestingum og þjáningum annarra og bólusetur með því áhorfandann svo að hann hættir að láta sér það koma við. Og lítur í aðra átt.
Ásta er samt miklu afkastameiri í lestri. Hún lýkur hverri bókinni á fætur annarri. Svo ræðum við efni þeirra og lendi ég í því stundum, þegar Ásta hefur sagt mér frá aðalþræði bóka, að ég missi áhugann á þeim.Yfirburðir Ástu felast í því að hún les þær allar, jafnvel þótt ég hafi gefið heldur lítið fyrir þær, og brosir kankvís þegar ég undrast það. Það bíða enn þrjár í plastinu. Þetta eru góðar vikur.
Það rifjast upp fyrir mér niðurstaða kunningja míns eins. Hann hafði fengið falskar tennur hjá tannlækni úti á landi. Einhverjum varð á að spyrja hvernig þær reyndust. Og hann svaraði: „Þær eru ágætar til að lesa með þeim.“