Impression

Fyrsta myndin greip hug og hjarta samstundis. Ég tók alpahúfuna ofan.

Það er með ólíkindum hvað sum málverk geta verkað sterkt og vakið inni í manni tindrandi hughrif. Þess vegna geng ég alltaf hljóðlega um söfn. Vænti þess að aðrir geri það einnig. Því var ekki að heilsa í gær. Fólk talaði fullum hálsi, hló hrossahlátri og börn ærsluðust agalaus. Til að bæta gráu ofan á svart þá bergmálar mjög í stærri sölunum og glymur í göngum. Listasafn Íslands í gær, sunnudag.

En þarna eru frábærar myndir eftir frábæra menn. Sú fyrsta, Svörtu sokkarnir, eftir Bonnard, greip samstundis. Kona klæðir sig í svarta sokka. Hvað er svona merkilegt við það? Það er galdurinn sem hrífur. Og maður finnur það og getur næstum því snert það. En að lýsa því með orðum tekst ekki. Það er galdurinn.

Ég ætla að fara aftur í vikunni, fljótlega, fyrir hádegi og ljúka heimsókninni sem hófst í gær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.