Það var allt í einu kominn auka vegpunktur í tækið. Ég lagði mig allan fram um að reyna að rifja upp hvar hann hefði komið til. Það tókst ekki. Reyndar er langt síðan ég hef notað apparatið. Hef verið svo upptekinn við smíðar í sveitinni að tækið hefur legið ofan í skúffu í marga mánuði. Jafnvel síðan í fyrra. En nú hafa verið góðir dagar og verkefni fá, þannig að ég ákvað að fara með apparatið út og rifja upp.
Það átti einungis að vera einn vegpunktur. Vegpunktur 1. Home. En þegar ég fletti þá kom upp vegpunktur 2. Hvaðan kom hann? Til að fá úr því skorið ýtti ég á GOTO vegpunktur 2. Strax kom rautt strik á milli punktanna. Ég reyndi að átta mig á landakortinu hvar punkturinn væri. Það tókst ekki. Enda er þetta handtæki og skjárinn smár. Ég ákvað því að láta tækið leiðsaga mig að vegpunkti 2. Setti það í haldara sem er ofan á mælaborðinu og ók af stað.
Í fyrstu atrennu ók ég í þveröfuga átt. Það kostaði nokkur heilabrot. Í næstu atrennu fór ég þvert af leiðinni. Stoppaði hjá Bónus í Ögurhvarfi. Fletti þar öllum síðum og gríndi í landakortið. Reyndi að rifja upp og átta mig á kortinu. Ók af stað aftur. Fór út á Breiðholtsbraut. Nú varð apparatið dús við mig. Beygði upp hjá BYKO. Stoppaði á bílastæðinu þar. Það vantaði enn 30 metra.
Ég ók í hringi um planið. Það vantaði þrjátíu til tuttugu metra. Þá fór ég út úr bílnum. Skildi hann eftir. Hóf göngu með tækið í hendinni. Ætlaði aldrei að komast yfir Skemmuveg hjá hringtorginu, enda greinilegt að þar er hvergi reiknað með gangandi fólki. Stökk yfir á milli bíla. Hélt af stað niður Smiðjuveg. Það styttist að vegpunkti 2. Komst niður í sjö metra. Fór yfir götuna. Þá lengdist í níu metra.
Nú ákvað ég að fara í hring og einblíndi á tækið. Komst aldrei nær en fimm metra. Fór annan hring. Eftir tvo eða þrjá hringi, göngu fram og göngu til baka, sagði tækið allt í einu einn metri. Þegar ég var orðinn viss um þetta og skildi að ég kæmist ekki nær byrjuðu bílar að flauta beggja megin við mig, langar raðir og ég uppgötvaði að ég stóð úti á miðjum Smiðjuvegi. Á móts við Íspan. Og hentist upp á gangstétt. Úff. Heppinn að enginn ók á mig.
Þegar ég var kominn aftur í bílinn á planinu hjá BYKO og gat andað djúpt, fletti ég upp á ferlinum í apparatinu. Sá punktalínu sem sýndi feril hring eftir hring og fram og til baka, á sama svæðinu. Eins og klikkaður maður hefði verið á ferðinni. Eyddi ferlinu samstundis. Og punktunum. Setti samt einn nýjan inn þegar heim kom. 64°05.72N / 021°51.10V. Home. Ég get þá væntanlega komið mér heim ef ég ruglast meira. Eða þannig!