Líkur sjálfum sér, september. Suðvestan allhvass og hvass, gengur á með rigningu. Við vorum í sveitinni og fylgdumst með bændafólkinu handan við ána. Fyrir klukkan sjö lagði það á hesta sína og hélt af stað til fjalla. Til að smala. Skömmu síðar ókum við Ásta og sóttum þrjátíu hríslur, birki og reyni. Höfðum keypt þær á miðju sumri. Hugðumst gróðursetja í september. September hefur reynst okkur vel.
Melurinn sem við gróðursettum í var harður og erfiður og veðrið leiðinlegt. Glímdum við við verkefnið fram að hádegi, gegnblaut og hrakin. Hvergi þurr þráður og gutlaði í skófatnaði. Eina huggun okkar var sú að bændafólkið í smalamennskunni hlaut að hafa það miklu verra en við og því ekki ástæða til að kvarta. Og svo reyndum við að hlægja með hárið klesst niður á andlitið og vatnstaumana rennandi niður í hálsmálið. Á slíkum stundum er afar gott að kyssast.
Það hafa margir ort og sungið um september af mikilli ástríðu og hjartans innlifun. Og einhvern veginn kemst maður í rómatískt skap og tilfinningaflæði þrátt fyrir suðvestan tuttugu metra á sekúndu og rigningu. Og rifjar upp löngu löngu liðin áhrif:
September In The Rain
The leaves of brown came tumbling down – remember
That September in the rain.
The sun went out just like a dying ember
That September in the rain
To ev´ry word of love I heard you wisper,
The raindrops seemed to play a sweet refrain.
Though spring is here, to me its still September,
That September in the rain.
Í hádeginu tók sauðféð að renna niður fjallshlíðina. Og smalarnir í rauðum og grænum vatnsgöllum. Sveitavegirnir tóku að iða af bílaumumferð. Allur heimurinn stefndi í réttirnar. Við Ásta vorum samt aðeins hálfnuð að gróðursetja og lukum því eftir hádegi. Í ágætu veðri, þurru og þægilegu. Héldum heim snemma á sunnudagsmorgni. Flúðum vonda veðurspá og eyddum deginum heima í innidruslunum okkar.
Á flandri um netið rakst ég á smásögu eftir Stephen Crane. Hún situr föst í huga mínum. Heitir A Dark Brown Dog og hefst svona í lauslegri þýðingu:
„Dökkbrúnn hundur
Lítill drengur stóð á götuhorni. Hann hallaði annarri öxlinni upp að tréhandriði en sveigði hina til og frá og sparkaði kæruleysislega í mölina. Sólin skein á götusteinanna og hæg sumargola lyfti gulu ryki sem sveif í skýjum niður strætið. Skröltandi vörubílar óku ógreinilegir í rykinu. Drengurinn stóð og horfði dreyminn á.
Eftir stund kom lítill dökkbrúnn hundur skokkandi, einbeittur, niður gangstéttina. Hann dró stutt hálsband. Öðru hverju steig hann á endann á bandinu og hnaut við. Hann stansaði andspænis drengnum og þeir skoðuðu hver annan. Hundurinn hikaði augnablik, en sýndi síðan jákvæð viðbrögð með skottinu. Drengurinn rétti út hönd og kallaði á hann. Með afsakandi tilburðum kom hundurinn nær og þeir tveir skiptust á vinahótum, klappi og dilli. Hundurinn varð ákafari við vaxandi kynni og í gleði sinni flaðraði hann upp um drenginn og felldi hann. Þá lyfti drengurinn hönd og sló hundinn í hausinn.
Þetta virtist undra litla dökkbrúna hundinn og særa hann í hjartastað. Hann lagðist í örvæntingu niður við fætur drengsins. Þegar höggið var endurtekið, ásamt með áminningu og skömmum drengsins, velti hundurinn sér á bakið og hélt loppunum í sérstökum stellingum. Einnig sýndi hann með eyrum og biðjandi augnaráði bæn til drengsins. Hundurinn var svo broslegur þar sem hann lá á bakinu með fæturna í þessum sérstöku stellingum að drengnum var verulega skemmt og hann klappaði hundinum til þess að hann héldi stellingunni.
En litli dökkbrúni hundurinn tók ráðningunni mjög alvarlega og áleit, án nokkurs vafa, að hann hefði framið grafalvarlegan glæp, því hann dillaði skottinu ákaflega og auðsýndi iðrun á alla þá vegu sem í hans valdi stóðu. Hann afsakaði sig við drenginn og flaðraði í kringum hann í einskonar beiðni um fyrirgefningu….“