Þetta hófst með því að maðurinn spurði hvort ég væri með ný gleraugu. „Nei, ekki aldeilis. Þau eru árs eða tveggja.” „Hví spyrðu?” „Mér sýnist eitthvað vera breytt við þig.” „Hvað ætti það að vera?” „Ég veit það ekki. Ertu nýklipptur, kannski?” „Nei sko ekki, rakarinn minn er á Kanarí. Sex vikur held ég.” „Það er samt eitthvað breytt við þig,” sagði maðurinn, en við höfum hist á hverjum degi síðustu mánuði. „Hvað getur verið svona breytt við þig?” sagði hann svo eftir að hafa skoðað mig um hríð. „Ja, ég veit ekki um neitt, nema að það var skipt um bremsuklossa í bílnum mínum í morgun.”
Þetta var síðdegis í dag. Og eftir að hafa spjallað um stund og rætt um blogg og allan þann fjölda af sérfræðingum sem bloggar um stríðið í Írak, kom upp í huga minn minning frá unglingsárunum. Það var í sveitinni. Ég var sumarstrákur þar. Fimmtán eða sextán ára. Hafði verið á togara um veturinn. Ungur maður af öðrum bæ, kaupamaður af Suðursnesjum, kom einhverra erinda á bæinn.
Húsbóndi minn, greindur og snaggaralegur kall, spurði unga manninn hverra manna hann væri, hvaðan hann væri og hvaða störf hann hefði stundað. Ungi maðurinn af öðrum bæ svaraði öllu þessu hikandi og með semingi. Þegar að því kom að svara til um hvað hann hefði starfað, sagðist hann hafa verið á togara í eitt eða tvö ár. Þá blandaði ég mér í umræðuna, með reynslu af togurum og spurði: „Hvað gerðir þú um borð?”
Eftir nokkurt hik svaraði hann með sama semingi: „Hífa upp draslið.” „Hífa upp draslið. Hvaða drasl?” spurði ég. „Þetta með fiskinum í,” svaraði hann. Og nú varð ég hissa. Tvö ár á togara og hífir upp draslið. Tvo ár á togara og veit ekki hvað hlutirnir heita. Það er eitthvað bogið við svona tal. Eitthvað klikkað við svona tal. Líkt og bloggið um Írak.