Pabbi hefði orðið níutíu og níu ára í dag hefði hann lifað. En fólk lifir ekki svo mörg ár að jafnaði. Pabbi dó samt allt of ungur. Aðeins fimmtíu og fjögurra ára. En eigi má sköpunum renna, segir á bók. Eða, ekki verður hjá örlögunum komist. Svona hugsanir líta stundum við hjá manni. Gjarnan á dögum sem voru / eru einskonar merkisteinar í ævi manns. Svo sem fæðingardagar foreldra.
Ég kom við hjá þeim í dag. Þau hvíla fjögur saman. Afi, Ólafur Þorleifsson, amma, Hreiðarsína Hreiðarsdóttir, Sigurbjörg föðursystir mín og Ágúst pabbi minn. Afi og amma bjuggu á Grettisgötu 61. Við komum þangað oft, fjölskyldan, á meðan allir voru vinir. Vinsemdinni lauk við skilnað pabba og mömmu. Það voru mikil mistök að halda ekki í vinsemdina. Ég sakna þess.
Það rifjaðist upp fyrir mér dagurinn sem afi Ólafur lést. Það var 1947. Ég var tíu ára. Við vorum í tjöldum við Miðfell við Þingvallavatn, pabbi, mamma, Steindór bróðir, ég og Sigga systir mín ársgömul. Við höfðum verið þarna í tvær vikur. Það var mikið ævintýri. Pabbi átti bát, sex feta snekkjubát og veðrið var alltaf gott og allir veiddu. Bleikju. Einhver ósköp af stórri bleikju. Ryðrauðri. Pabbi gerði stíur með vírneti á milli steinhnullunga í fjöruborðinu og geymdi fiskinn þar lifandi.
Svo var pabbi kallaður í símann á bóndabænum. Og andrúmsloftið skipti um lit. Ég man ekki margt frá útförinni. Fjölskyldan kom saman á eftir heima hjá ömmu á Grettisgötu. Allmargt fólk. sjá nánar hér. Ættmenni og nánustu vinir. Drukku kaffi í stofunni. Ég laumaðist inn í herbergi sem sneri út að götu. Þar var lítið fótstigið orgel. Ég kunni svolítið að spila.
Fyrst spilaði ég Lýs milda ljós. Fjórraddað. Viðkvæmt og fallegt lag og texti. „…mig glepur sýn.“ Spilaði það aftur og aftur. Svo gleymdi ég mér og spilaði boogie woogie. Þá kom Gulla frænka og sagði að það væri ekki viðeigandi og lokaði orgelinu. Gulla frænka var alltaf svo flott og fín. Ásta frænka var þarna líka og Hreiðar og Guðjón á Hofi. Fólkið hans pabba. Þetta rifjaðist upp fyrir mér í dag við leiði þessara elsku vina.
Þrítugasta mars.
Eitt andsvar við „Þrítugasti mars“