Stundum raða góðir dagar sér upp og umlykja fólk. Þá er góður tími. Það er samt misjafnt hvað gerir daga góða. Hjá flóknum og margbrotnum sálum þarf vafalaust margháttuð atriði til að gera daga góða. Okkur hinum nægja einföld strik og fáir litir. Síðustu dagar hafa einmitt verið slíkir í mínu umhverfi og innri maðurinn brosir drjúgur með sig þegar orð Prédikarans um vondu dagana missa gildi sitt um hríð, þótt sígild séu.
Orsök ánægjunnar má rekja til hinnar harmþrungnu frásögu af Gustav Aschenbach – og Tadzio hinum fagra. Tadzio, sem hljómar líkt og Adagio, og: „Tadzio brosti, brosti til hans; varirnar opnuðust hægt í ljúfu, einlægu töfrandi brosi. Svona brosir Narkissos þegar hann hallar sér yfir skyggðan flöt lindarinnar; svona er álagabrosið á vörum hans er hann teygir armana eftir mynd sinni í skuggsjá vatnsins; fráleitt bros, afvegaleitt bros, því þráin eftir að kyssa fagrar varir eigin skugga fær enga svölun; ástleitið bros, forvitið og tregafullt, lostfagurt og tælandi.“ – sem lét lífið fyrir ástina.
Á þessum dögum lauk einnig lestri á frásögunni af Ívani Jakovlévitsj sem var rakari og hafði skilti yfir stofunni sinni með mynd af herramanni með raksápu á kinnunum og þar fyrir neðan stendur „Tökum einnig blóð.“ Frásagan fjallar um nefið af Kovaljov kammerherra sem rakarinn Ívan, án þess að muna atvik, fann heima hjá sér einn daginn og vafði inn í klút og ætlaði að losa sig við sem allra fyrst, en reyndist ekki svo einfalt.
Ánægja okkar Ástu óx að verulegu marki þegar okkur tókst, eftir langt hlé, að heimsækja Borgarfjörð og kúra í smáhýsinu okkar, sem við nefnum Litla-tré, yfir helgina. Hvíla þar í kyrrðinni, horfa yfir hjarnið og sjá toppana á hríslunum, sem við gróðursettum í fyrra, standa svo sem eins og fet upp úr snjósköflunum og vekja vonir um vor, hnúkaþey og gróðurilm jarðar. Og lesa í Engjafangi minningar Magnúsar í Stóra-Ási um búskap og ferðalög, og fjárrekstur ofan úr Borgarfirði yfir heiðar til Reykjavíkur.
Og síðasta daginn, koma til baka til byggða og eiga fullan póstkassa af Mogga sem maður breiðir úr yfir borðstofuborð og hvolfir sér yfir og les og les. Bæði tvö. Við sinn enda borðsins hvort. Ganga loks til náða og taka með sér viðtal Árna Þórarinssonar við Braga Kristjónsson fornbókasala. Stórskemmtileg grein um bráðsniðugan mann sem segir frá af einstakri lipurð og lífsgleði. Hvað er hægt að hugsa sér betra en daga með þvílíku innihaldi og nætur við hlið hennar Ástu. Ekkert sem ég veit um.