Hafði hugsað mér að skrifa nokkur orð í tilefni af degi tungunnar. Móðurmálsins. Fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Aftur á móti ætlaði ég ekki að tala um Jónas. Né verk hans. Það eru svo margir sem gera það og miklu, miklu betur en ég. En það er annað skáld sem á þennan sama fæðingardag. Skáld sem sjaldan heyrist nefnt þrátt fyrir ljóð sín og ljóðabækur. Kannski af því að skáldið er kona. Heiti pistilsins er nafn á einu ljóða hennar.
Hún heitir Þuríður Guðmundsdóttir og er frá Sámsstöðum í Hvítársíðu. Leyfi ég mér að birta eitt ljóða hennar úr bókinni Nóttin hlustar á mig:
Tileinkað konum sem elska of mikið
Skar mig skar mig
á sársauka þínum
skar mig
aftur og aftur
uns ég varð
eitt flakandi sár
sálfræðingurinn
hristi höfuðið
hann er að kenna mér
handtökin
kenna mér
að beita hnífnum.