Snittubrauð

Það er sáraeinfalt erindi að fara í bakarí. Það vita flestir. Ég hafði áætlað að elda súpu með humri sem okkur var gefin. Og fór í bakarí til að kaupa snittubrauð. Þar var ös. Í biðröðinni skimaði ég um. Kaffihorn er þarna og sátu þar tíu karlar við borð og ræddu málin. Ábúðarmiklir menn. Flestir yngri en ég

Svo kom að mér við afgreiðsluborðið og stúlka skar brauðið mitt í tvennt og setti í poka. Kliðurinn frá körlunum tíu var nokkuð hávær. Setið var við fleiri borð en fólkið þar naut hljóðlega.

Ég dró þá ályktun að þessir tíu væru klíkukarlar, hugsanlega í stjórn félags eða ráðs, fastagestir sem eignuðu sér langborðið og andrúmsloftið. Á útleiðinni kom ég auga á auðan stól við borð karlanna og setti í mig kjark, með brauðið í öðrum handarkrikanum og settist í auða stólinn. Brast nú alger þögn á hópinn. Ég bauð góðan dag. Enginn tók undir. Mennirnir litu hver á annan. Sumir hleyptu í brýnnar.

Ég sleit lítinn bút úr brauðinu mínu og setti upp í mig. Skoðaði mennina. Sagði:
„Það rignir.“ Enginn leit í átt til mín og enginn tók undir við mig. Ég tuggði rólega. Bætti svo við:
„Hvað er á döfinni?“ Þögn.
Og meiri þögn.
Einn mannanna ræskti sig og sagði:
„Réttu mér stafinn minn, Siggi,“ og annar bætti við:
„Jæja piltar, er ekki nóg komið í dag?“
Og að þeim orðum sögðum stóðu þeir upp einn á eftir öðrum, hnepptu að sér yfirhöfnum og yfirgáfu bakaríið.
Út um stórann glugga sá ég þá fara inn í þessa fínu bíla og aka á brott.

Þegar ég var orðinn einn stóð ég upp, hagræddi snittubrauðinu og sagði svo sem eins og við sjálfan mig:
„Það mátti nú reyna.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.