Næst þegar ég hitti Dodda hafði hann lokið verkefni dagsins og var heldur ánægður. Hann virtist til í að spjalla. Það var gott veður. Hægur vindur og þurrt. Við ræddum eitt og annað. Varfærnislega til að byrja með enda langt síðan við höfðum spjallað að einhverju gagni.
Þegar þar kom í samtalinu að bíla bar á góma sagðist hann alltaf sjá eftir sendibílnum sem hann átti á tímabili og ók á stöð. Svo horfði hann niður á götuna um hríð eins og hann væri djúpt hugsi. Og ég þagði með honum.
Loks áræddi ég að spyrja hvort hann rifjaði nokkurn tímann upp orðaforða kvennanna í saltfiskvaskinu. Þá leit hann upp og virtist rifja upp. Sagði svo:
„Eiginlega ekki síðan í Ægissíðu skurðinum.“ Hann bætti svo við:
„Kannski einu sinni. Ég var þá á sendibílnum. Ég var sendur í túr. Var beðinn um að kaupa líter af mjólk og koma með í heimilisfang sem ég þekkti ekki. Ég keypti mjólkina og setti heimilisfangið í GPS tækið og ók af stað.“
„Þarfaþing þessi leiðsögutæki,“ skaut ég inn í.
„Heimilisfangið reyndist vera í millahverfi. Hver höllin eftir aðra og allt um kring skínandi peningalegt. Svo kom ég að húsinu. Meira að segja stéttin glóði. Ég hringdi bjöllu og kvenmanns rödd kom í dyrasímann og sagði: „Komdu inn,“ og svo heyrðist hljóð og smellur og hurðin opnaðist upp á gátt. Hikandi gekk ég inn í víða forstofu og kom svo inn í risavaxið hol.“Doddi hikaði í frásögninni og varð fjarrænn til augnanna. Hélt svo áfram:
„Mér leið ekki vel þarna. Var bara í vinnugalla og allt svona svakalega flott. En konuröddin kallaði innar úr húsinu og sagði: „Viltu koma hingað, ég er í eldhúsinu.“ Ég var alveg eins og kjáni og þegar í eldhúsið kom var mér öllum lokið. Það var stórt eins og allt húsið sem ég ólst upp í. Allir veggir klæddir með dökkum glansandi steinflísum, og græjurnar maður, þú hefðir átt að sjá græjurnar. Það munaði engu að ég hætti að anda.
Og þarna stóð konan og hrærði í hafragraut í litlum skaftpotti. Pínulítil kona í þessu stóra rými. Hún leit ekki upp. Gjörsamlega orðlaus lagði ég frá mér mjólkurfernuna. Skimaði um eldhúsið furðulostinn. Bakkaði svo út úr húsinu og settist inn í bílinn. Það var þá sem ég fór yfir allan orðaforða kvennanna í saltfiskvaskinu. Aftur og aftur.
Uppgötvaði seinna að ég hafði gleymt að rukka. Og að svona eldhús gæti kostað fjórtán komma sjö milljónir.