„En hví birtist ég nú í þessu óvenjulega gervi? Það skuluð þið fá að vita ef þið vilduð vera svo væn að ljá mér eyra.
En þó ekki það sem þið ljáið frómum prédikurum heldur hitt sem er ykkur svo ljúft að sperra þegar froðusnakkar, fífl og trúðar þenja sig, samskonar og vinur okkar Mídas lagði við flautuleik Pans forðum. Mig langar til að bregða mér í gervi lýðfræðarans um stund. Ekki þó af þeirri tegund sem ryður úr sér innantómu þrugli í skólum og lætur nemendur sína standa í langvinnum kerlingastælum um fánýta hluti.
Ekki aldeilis. Ég fylgi fordæmi þeirra lýðfræðara fornaldar sem ekki vildu kalla sig því vafasama nafni vitringar, heldur kusu fremur að kalla sig sófista. Á sama hátt og þeir lofsungu hetjur og guði þá munuð þið líka heyra lofræðu úr mínum munni. Sú lofræða fjallar hvorki um Herkúles né Sólon, heldur sjálfa mig, heimskuna.“
Lof heimskunnar. Erasmus frá Rotterdam. Gr. 3.