Í gær var borinn til moldar einstakur öðlingur, Arnbjörn Eiríksson.
Æðrulaus, lítillátur og hógvær mætti hann örlögum sínum þegar hann var greindur með banvænan sjúkdóm og sagði: ,,Ég ætla að vera jákvæður alla leið. Þar til yfir lýkur.“ Og við það stóð hann. Jákvæður og æðrulaus alla leið.
Arnbjörn var maður sem mætti öllum með hlýju. Öllum sem urðu á leið hans. Vinum sínum var hann vinur. Börnum sínum stólpi og fjölskyldu. Hann var hugljúfi allra manna.
Kunningsskapur okkar og vinátta varði í liðlega tuttugu ár. Það hafði þrengt að honum. Brekka reynst honum brött. Hann leitaði að grænni grund til að hvílast. Og eins og spekin segir: ,,…hún er auðfundin þeim sem hennar leita. Því að spekin er mannelskandi andi. Og hún leitar þeirra sjálf sem hennar eru maklegir.“ Arnbjörn var einn þeirra. Maklegur. Og líf hans breyttist. Fátt er undursamlegra en að upplifa það og geta tekið undir með söngvurunum sem syngja: ,,..nú er veturinn liðinn og ljósið, aftur lifandi tekið að skína.“
Við mættumst í trúnni á Krist. Kristur slóst í för með Arnbirni. Vinátta okkar dró andann í trúnni. Nærðist þar. Það var alltaf gott að hitta hann. Gott að spjalla við hann. Við ræddum trúmál. Ræddum um frelsarann, orð hans og athöfn, og fundum fögnuð í þeirri samveru. Hlýjan var mikil. Vinsemdin var mikil. Þeir sem til þekktu skildu hvað fjölskylda hans var honum mikilvæg. Börnin hans, makar þeirra og barnabörn komu saman og nutu samvista í Nýlendu. Og þegar hann sendi frá sér myndir með ,,afa grísina“ í fanginu þá var hann ætíð brosandi út að eyrum og ánægjan og hamingjan geislaði af honum
Það var ánægjulegt að kynnast Arnbirni og gott að eiga hann að vini. Hann var kvaddur til annarrar tilveru alltof fljótt, eftir mælikvarða okkar mannanna. Á þessum sorgardögum fjölskyldunnar vottum við henni einlæga samúð okkar og biðjum Guð að hugga og styrkja. Arnbjarnar er sárt saknað.
Óli Ágústsson, Ásta Jónsdóttir.