Hún sat upp við vegginn við hlið súlunnar með stóran tebolla sem hún hélt með báðum höndum upp að vörunum án þess að drekka og hún starði fjarrænum augum yfir kaffistofuna á gólfið fjærst henni.
Þetta var ung kona, undir þrítugu áreiðanlega. Hún var klædd í þunna úlpu, fráhneppta, ljósa með loðinn uppbrettan kraga og það var opin bók á borðinu sem hún sat við og farsími. Hún virtist annars hugar og ysinn náði ekki til hennar. Ég sat skammt frá henni upp við sama vegg og hún og leit öðru hvoru á hana.
Var annars að spjalla við frú Ástu en við gerðum okkur erindi í Kringluna sem er afar sjaldgæft á þessum árum. Pilturinn sem afgreiddi hafði spurt hvort ég vildi lítinn eða stórann cappuccino og ég spurði hann á móti hvort hann hefði farið í permanent en hárið á honum stóð í allar áttir. Konan með tebollann hreyfði sig ekki, hélt bollanum í sömu stellingu og enn starði hún þegar minn bolli var orðinn tómur og Ásta búin með súkkulaðibitakökuna.
Ég gjóaði augunum til konunnar og sá ekki betur en að tár rynnu úr auganu sem snéri að mér og þá fór sálin í mér að spinna allskyns mögulega harma sem að konunni steðjuðu. Og fann sárt til með henni. Já, verulega. Ekki gott þegar ungt og fallegt fólk býr við hjartasorg. Við Ásta stóðum loks upp. Og þegar ég beygði mig eftir innkaupapokanum okkar sá ég konuna með tebollann ýta augnlokinu niður á auganu sem að mér snéri og sprauta augndropum í það.