Náungi minn í strætóskýlinu hnipraði sig enn meira saman og nú réri hann fram í gráðið. Umlið varð ögn hærra. Ég stóð upp, engum háður og sæmilega bjartsýnn og bjóst til að fara. Það var þá sem ég heyrði ekkahljóðin.
Ég varð ráðvilltur. Velti fyrir mér hvort ég ætti að fara eða vera. Skrýtið hvernig hugsanir togast á inni í manni. Eftir nokkurn þæfing í sálarlífinu ákvað ég að staldra við. Og settist aftur á bekkinn. Núna talsvert nær manninum. Vissi ekki alveg af hverju ég gerði það. Svo sat ég þarna drjúga stund. Og strætó kom og sagði hviss hvass og enginn steig út og enginn steig inn. Og strætó ók af stað.
Nú leið allöng stund. Strætó kom og sagan endurtók sig. Það leið hálftími á milli vagna. Ég ákvað að fara þegar strætó kæmi næst. Nú var náunginn þagnaður. Og litlu síðar kom strætó eina ferðina enn. Ég reis á fætur. Og það gerði náunginn líka. Og strætó ók af stað eftir sitt hviss hvass. Mér varð litið á náungann.
Hann lagaði kragann á jakkanum. Því næst tók hann sixpensarann niður og í ljós kom mikið ljóst hár sem náði niður á axlir. Þessu næst hneppti hann frá sér jakkanum. Og við blasti að þetta var ekki hann, þetta var hún. Hún snéri sér að mér og sagði lágri rödd: ,,Takk fyrir.“
Óli minn eru skinjarinn orðin úreltur ?