Við fórum í Borgarleikhúsið í gærkvöldi. Áttum gjafakort frá því í fyrra. Sáum Gullregn. Það var troðfullt hús, enda leikritið margumtalað og frægt fyrir frábæran leik og fyndni. Fyndni. Hún náði samt eiginlega aldrei til mín. Þegar salurinn skellihló, og sumir veinuðu meira að segja, þá var það frekar einskonar samúð sem vaknaði í mér.
Mér finnst verkið fremur vera harmleikur þótt það sé á köflum sett í fyndinn búning. Leikararnir standa sig afburða vel. Sigrún Edda og Halldóra Geirharðsdóttir eru í eftirminnilegustu hlutverkunum. Sigrún á háa sjéinu svo til allt verkið og Halldóra, eins og alltaf, gjörsamlega heillandi leikkona.
Minna mæðir á Hallgrími og Brynhildi en bæði skila sínu ágætlega. Önnur hlutverk eru minni. Höfundurinn, Ragnar Bragason, sem jafnframt leikstýrir verkinu, er flinkur og gerir vel, bæði í texta og leikstjórn.
Þar sem margir leikhúsvitar, sem og aðrir, hafa skrifað lærða og leika dóma um verkið ætla ég mér ekki þá dul að þykjast tala af einhverju viti um það. Saknaði samt ádeilu á það almannakerfi sem ekki leggur meiri áherslu á að hjálpa fólki út úr vítahring heimsmyndar sem heldur kynslóð eftir kynslóð í fjötrum lífs á bótum frá félagsmálastofnunum og almannatryggingum.