Með fullkomnum ólíkindum var að hlusta á Bjarna Ben um helgina lýsa því yfir í sjónvarpi að hann myndi engin afskipti hafa af stöðu Guðlaugs Þórs í þingmannaliði Sjálfstæðisflokksins.
Sýnist mér sú skýring helst koma til greina að Guðlaugur Þór, sem er einn af innstu hjartans vinum flokksins, búi yfir svo miklum upplýsingum um fjármálabrellur annarra flokksmanna að þeir vogi ekki að snerta hann.
Þá vakti undrun að lesa fésbókarkorn Lilju Mós þar sem hún segir: „Ég geng ekki í takt við þjóðina og deili ekki hrifningu hennar á utanþingsráðherrum.“ Þessi orð benda væntanlega til þess að hún sé hrifinn af öllum innanþingsráðherrum svo sem eins og Jóni Bjarnasyni, svo einhver sé nefndur.
Í þriðja lagi, þá verður manni orðfall af að hlusta á Sigurð Kára hrópa dag eftir dag um pólitíska spillingu í ríkisstjórninni og súpa hveljur yfir launamáli seðlabankastjóra. Málflutningur drengsins bendir til þess að hann vilji umfram allt beina athygli frá sínum flokksbræðrum og flokki þó þar sé af ýmsu að taka. Ekki leggja kapparnir þýðingarmeiri málum lið á meðan þeir busla í froðunni.
Ekki átta ég mig á hvaða álit þetta fólk hefur á almenningi. En nokkuð ljóst er að megnið af reyknum sem rýkur af þingfundum Alþingis vekur meiri ónot en gjóskan úr Eyjafjallajökli. Það er ekki út í hött að stungið er upp á því að Guðlaugur Þór bjóði sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Það væri kóróna við hæfi