„Þú ert þá enginn annar en ég sjálfur! Ég sé það, ég get ekki villst á mynd sjálfs mín. Ég brenn af ást til mín, ég kveiki logann og loga sjálfur. Hvað get ég gert? Á ég að láta biðja mig eða biðja sjálfur? Og um hvað á ég þá að biðja? Ég girnist það sem er hluti af mér sjálfum, ofgnótt mín gerir mig að þurfamanni.“
Litlu síðar, þegar yfirborð lindarinnar hafði gárast af tárum sem hann felldi, og var aftur orðið slétt sem spegill, segir: „þá var honum öllum lokið, og svo sem hið gula vax bráðnar af léttum eldi og klaki leysist upp í yl sólarinnar, þá bráðnaði hann af ást og tærðist upp smám saman af innibyrgðum eldi.““
Frá æsku á ég minningu um frásöguna af Narkissusi. Hún var í bók með einskonar lesköflum og myndinni af manninum við lindina. Sagan varð mér hugstæð og settist í fylgsnin. Síðar lagði ég mig fram um að finna bókina með frásögunni. Það tókst aldrei.
Í vetur gaf Ásta mér Ummyndanir eftir Ovidíus. Glæsilegt verk í þýðingu Kristjáns Árnasonar sem nýlega hlaut íslensku þýðingarverðlaunin fyrir verkið. Smámsaman hef ég verið að fikra mig eftir bókinni og þegar ég mætti kaflanum um Narkissus varð ég tíu ára nokkra stund og rifjaði upp samtal við móður mína um söguna. Það var í eldhúsinu á Bjargi.
Einhvern veginn fellur frásagan af Narkissusi að frásögum af ,,víkingum“ nútímans og misþroska stjórnmálamönnum. Sígilt bókmenntaverk sem rímar við alla tíma.
Nefni þetta svona í tilefni af viku bókarinnar.