Þetta var á biðstofunni í Læknasetrinu. Fyrri hluta morguns. Í vikunni. Það var fremur fátt fólk, eldri borgarar með einni undantekningu. Fjærst voru hjón. Konan hafði orð fyrir þeim. Þá yngri kona vanfær, komin langt á leið. Yfir henni var þessi heiðríkju svipur sem gjarnan einkennir vanfærar konur. Þá tveir karlar andspænis mér. Einn stóll laus á milli þeirra. Annar þeirra fletti tímariti. Hratt. Hinn iðaði í sætinu. Tók síðan að ræða við þann sem næst honum sat.
Fyrst ræddi hann um almenn efni. Viðmælandinn tók honum vel. Fljótlega voru þeir farnir ræða af ákafa um eitt og annað frá fyrri árum. Eins og gengur. Síðan gerðust samræðurnar persónulegri. „Ég hef átt í basli með þrýstinginn. Hann er alltof hár. Má ekki við miklu þá fer allt í voða. Það bjargaði mér að hitta þessa konu. Ég var afskaplega heppinn þar. Hef búið með henni í tuttugu ár. Hún sýnir mér fádæma umhyggju. Það er svo gott fyrir gamlan mann eins og mig að fá svona góða konu.“
„Það segir þú satt, “ svaraði hinn „og hverra manna er hún nú þessi ágæta kona?“ „Hún er dóttir þeirra Jóns á Háabarði og Guðrúnar. Einstaklega viðfelldið fólk og indælt.“
„Já, er hún dóttir þeirra,“ svaraði hinn, „ég þekki þau. Og heitir konan þín kannski Þóranna?“ „Já, blessunin, hún heitir Þóranna. Hvernig veistu það?“
„Og eruð þið gift?“
„Já, Guði sé lof.“
„Einmitt það,“ svaraði hinn og stóð upp, „þú ert þá náunginn sem tókst hana frá mér fyrir tuttugu árum.“