Í morgun eldsnemma var veðrið á allt annan veg en í gær. Nú var næstum heiðskírt, logn og sólin svo elskuleg og vermandi. Á kambi austan við kofann var andfugl. Hann teygði hálsinn þegar hann varð okkar var. Þar sem sólin var handan hans var ekki svo auðvelt að greina tegundina.
En sjónaukinn hjálpaði. Grænn haus, hringur um hálsinn og ljósir vængir. Stokkandarsteggur. Við veltum fyrir okkur hvort hann væri meiddur. Nei, nei, spúsa hans kom upp á barðið til hans. Þau kysstust og flugu upp. Í suðurátt. Þau hafa bara lent til að fá sér einn stuttan, sagði einhver.
Móinn logaði af ást og tilhugalífi. Skógarþröstur sat á grönnum hornstaur á lóðamörkum. Hann lyfti gogginum og söng fullum hálsi. Kórinn í móanum tók undir við hann. Já, og gaukurinn í loftinu. Hann spilaði á stélfjaðrirnar í hverri dýfunni á fætur annarri.
Fjárbændur hafa flutt sig úr íbúðarhúsum og út í fjárhúsin. Sauðburður er hafinn og allt heimafólk komið í ljósmóðurstörf. Kúabóndi plægir upp akur með þrískera. Holdanautahjörð eltir forvitin og skvettir upp rassi með sperrtan hala.
Það eru svona morgnar sem yngja hjörtu eldra fólks. Bjartir morgnar og lygnir eftir stöðuga rigningu og vestan kalda í tvo sólarhringa. Og karlinn í kofanum fer út á pall á nærbrókinni, berfættur og brosir til sólarinnar. Hún tekur því vel og bætir í skinið.
Þægileg tilfinning fer upp í gegnum iljar þegar stigið er á hlýtt pallagólfið. Sumarið er í grennd. Vonandi verður það snjólétt.
Já Óli íslenska sveitin og íslensk náttúra er mikils virði. Kveðja.