Eins og fram kom í síðasta pistli, verður maður alltaf dálítið heimspekilega sinnaður við jarðarfarir. Veltir fyrir sér hégóma tilverunnar. Ég vitnaði í Koheleth, orð hans um „Vanity of Vanities.“ Allt er hégómi. Hugur manns hverfur til hins látna, lífshlaups hans, stríðs, sigra og tapa.
En þannig er lífshlaup manna. Stríð, strit, sigrar og töp. Lífið er brekka, sagði einhver. Það var samt Koheleth, Prédikarinn, sem kom mér á bragðið með Biblíuna fyrir margt löngu. Bókin er er hlaðin hugsunum manna um lífshlaup, tilgang og tilgangsleysi.
Margir kannast við og þekkja þriðja kafla Prédikarans: Öllu er afmörkuð stund. „Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma.“ Kaflinn fjallar einmitt um það hvernig viðfangsefni hafa sinn tíma og andstæða þeirra hefir einnig sinn tíma. Eins og Koheleth sá það.
Í lífi manna skiptast á góðir og slæmir tímar. Líkt og sjávarföllin, flóð og fjara. Þá er vandi mannsins fólginn í þeim ákvörðunum sem hann tekur. Til að taka ákvörðun sem eykur við gæfu hans þarf að hafa þekkingu svo að lífið fari ekki til spillis.
Shakespeare orðar þetta á eftirfarandi hátt í leikritinu Júlíus Sesar, 4 þætti 3:
There is a tide in the affairs of men,
Which, taken at the flood, leads on to fortune;
Omitted, all the voyage of their life
Is bound in shallows and in miseries.
Málsnillingurinn Helgi Hálfdanarson íslenskar þessi orð á sinn frábæra hátt:
„Í mannlífinu gætir flóðs og fjöru;
sé flóðsins neytt, er opin leið til gæfu,
en láist það, er lífsins sigling teppt
á grunnu lóni lítilmennsku og smánar.“
Það er gott fyrir sérhvern mann að spyrja eins og harmkvælamaðurinn Job gerir í kvæðinu um spekina:
„En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?“
Hugsun spekinganna og hugleiðingar um fáránleikann og andstæður hans leita á þegar setið er í Guðshúsi við kveðjustund vinar. Og það er verðugt viðfangsefni að hugleiða spurningu mannsins frá Ús-landi. „En spekin, hvar er hana að finna?“
Óþekktur höfundur The Wisdom of Solomon svarar spurningu Jobs á eftirfarandi hátt:
„She herself walks about looking for those who are worthy of her
and graciously shows herself to them as they go,
in every thought of theirs coming to meet them.“
( Wisdom. 6:16. Jerusalem OT.)
…því hún gengur um kring og leitar þeirra sjálf,
sem hennar eru maklegir,
og birtist þeim fúslega á vegum þeirra
og kemur á móti þeim við hverja hugsun þeirra.
( Apokrýfar útg. 1931. Bls. 258).