Hún fjallar um harm. Yfirþyrmandi ósegjanlegan harm eins manns. Úr krömdu hjarta hans óx tónverkið Tregagröfin. Leikin á gömbu. Með tónum tjáði hann sorg sína og angist. Það sem orð náðu ekki til. Hann lét smíða handa sér kofa úti í garði, í gríðarmiklu mórberjatré. Fjórar tröppur upp. Hann bætti bassastreng við hljóðfærið svo hægt væri að ná dýpri tón á það og ljá honum dapurlegri blæ.
Ég les bókina gjarnan tvisvar á ári. Stundum oftar. Undir tónum samnefndrar geislaplötu. Það er þegar rökkvar í huganum og mig langar að gráta. Þegar engin orð ná yfir dimmuna í brjóstinu. Þá strýkur nærvera herra Sainte Colombo á einhvern ósegjanlegan hátt eins og bogi yfir strengina. Það minnir á það þegar kramin sál kemur kengboginn að sárum Krists á krossinum. Einhverskonar ósegjanleg samlíðan. Andvarp.
„Herra Marais færði kertastjakann nær nótnaheftinu. Þeir skoðuðu það, lokuðu heftinu, settust, stilltu saman hljóðfærin. Herra Sainte Colombo taldi inn meðan þeir settu fingurna í réttar stellingar. Þannig léku þeir Grátstafinn. Þegar gömburnar tvær tóku að hljóma, horfðu þeir hvor á annan. Þeir grétu. Birtan sem barst niður um þakgluggann var orðin gulleit. Þeir brostu í gegnum tárin sem runnu hægt niður eftir nefinu á þeim, niður kinnar þeirra, niður á varir þeirra.“
Þannig endar bókin, Tous les matines du monde. Allir heimsins morgnar.
Eitt andsvar við „Tous les matines du monde“