Tous les matines du monde

Hún fjallar um harm. Yfirþyrmandi ósegjanlegan harm eins manns. Úr krömdu hjarta hans óx tónverkið Tregagröfin. Leikin á gömbu. Með tónum tjáði hann sorg sína og angist. Það sem orð náðu ekki til. Hann lét smíða handa sér kofa úti í garði, í gríðarmiklu mórberjatré. Fjórar tröppur upp. Hann bætti bassastreng við hljóðfærið svo hægt væri að ná dýpri tón á það og ljá honum dapurlegri blæ.

Ég les bókina gjarnan tvisvar á ári. Stundum oftar. Undir tónum samnefndrar geislaplötu. Það er þegar rökkvar í huganum og mig langar að gráta. Þegar engin orð ná yfir dimmuna í brjóstinu. Þá strýkur nærvera herra Sainte Colombo á einhvern ósegjanlegan hátt eins og bogi yfir strengina. Það minnir á það þegar kramin sál kemur kengboginn að sárum Krists á krossinum. Einhverskonar ósegjanleg samlíðan. Andvarp.

Gamba

„Herra Marais færði kertastjakann nær nótnaheftinu. Þeir skoðuðu það, lokuðu heftinu, settust, stilltu saman hljóðfærin. Herra Sainte Colombo taldi inn meðan þeir settu fingurna í réttar stellingar. Þannig léku þeir Grátstafinn. Þegar gömburnar tvær tóku að hljóma, horfðu þeir hvor á annan. Þeir grétu. Birtan sem barst niður um þakgluggann var orðin gulleit. Þeir brostu í gegnum tárin sem runnu hægt niður eftir nefinu á þeim, niður kinnar þeirra, niður á varir þeirra.“

Þannig endar bókin, Tous les matines du monde. Allir heimsins morgnar.

Eitt andsvar við „Tous les matines du monde“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.