Við fórum á þessa fínu sýningu Páls frá Húsafelli. Það var um miðjan dag í dag. Sýningin heitir, Vinir mínir. Hún er hálfrar aldar afmælissýning. Páll er fæddur 1959. Það var ágætt ár hvað afurðir frjósemisgyðjunnar 1958 varðar. Margur prýðispiltur kom undir það ár. Og stúlkur.
Sýningin er í flottu húsnæði á Skúlagötu 30. Þar sýnir Páll 141 verk. Málverk, teikningar og höggmyndir. Við Ásta þekkjum margt af því fólki sem Páll hefur teiknað. Kristófer í Kalmanstungu, Sigurð á Þorvaldstöðum, Daníel á Fróðastöðum, svo ég nefni einhverja. En Hvítsíðingar eru einskonar vinir okkar á svipaðan hátt og Páll kallar sýninguna.
Þegar við mættum á staðinn var fremur fátt fólk. Páll sinnti því af einlægni. Svo kom þarna fyrrverandi leiðtogi framsóknarmanna. Hávær skellikjaftur sem óð um svæðið, fattur af sjálfsánægju og svo svakalega sjálfumglaður að mér fannst ég allur skreppa saman og verða að litlum feimnum fimm ára dreng.
Síðar kom Steini Steingríms. Hann kom ásamt eiginkonu. Alltaf hress og elskulegur. Hann minntist Steindórs bróður míns. Þeir þekktust í fyrra lífi. Við Steini kynntumst aftur á móti í Búrfellsvirkjun. Hann var þar við eftirlit. Ég var verkstjóri. Síðan hefur verið gott á milli okkar.
Undir lok veru okkar Ástu á sýningunni kom Óli í Kalmanstungu á svæðið. Hann er hvíthærður, síðhærður með bundið í tagl, og síðskeggjaður svo að af ber. Sennilega léttgeggjaður. Það er kostur. Hann var kátur og ljúfur. Hlýr. Eins ólíkur grónum bónda í afdalasveit og hugsast getur.
Þarna var hann mættur ásamt dóttur sinni og barnabörnum. Hann og Páll féllust í faðma. Sem vonlegt er. Aldir upp svo til á sömu torfunni en Hvítá skildi sveitir að. Í gömlum brag segir: „Húsafell og Tungur tvær, …“ Þá er átt við Kalmanstungu og Fljótstungu. „Húsafell og tungur tvær,…“ Við sem vorum þarna í bílslönguskóm fyrir fimmtíu árum lærðum þetta. „…Þorvaldsstaðir og Hallkelsbær…“
Kunnum sögur af Kristófer og Stefáni í Kalmanstungu, Bergþóri í Fljótstungu og Sigurður á Þorvaldsstöðum klippti okkur. Þess vegna var verulega gaman að koma á sýninguna og sjá myndir af ölum þessum sveitahöfðingjum upp um alla veggi.
En nú verð ég að fara að sinna páskalambinu. Við snæðum það í kvöld. Það er sabbat. Kannski bæti ég við pistilinn síðar.
Húsafell og tungur tvær,
Þorvaldsstaðir og Hallkellsbær,
Kolsstaðir og Gilsbakki grær
og þar með slotið Bjarna.
Kirkjuból, Hvammur, Haukagil
hef ég Sámsstaða komið til.
Á Háafelli ég hýrast vil
heldur en Tóftarkjarna.
Þorgautsstaðir og Fróðafrón
eru frábær hjón,
Síðumúli og Veggir varna.
Húsafellsbær og Tungur tvær,
Þorvaldsstaðir og Hallkelsbær,
Kolstaðir og Gilsbakki grær
betur en slotið Bjarna,
Kirkjuból, Hvammur, Haukagil,
hefi ég Sámsstaða komið til.
Á Háafelli ég hýrast vil
heldur en Tóftar-kjarna.
Þorgautsstaðir og Fróða-frón
eru frábær hjón.
Síðúmúli og Veggir varna.
Þorsteinn Árnason kenndi Magnúsi Halldórssyni á Síðumúlaveggjum þetta svona og Bjarni Árnason frá Brennistöðum skrifaði upp eftir Magnúsi.
Sæll Ásmundur,
ég lærði þetta svona, get ekki ábyrgst að þetta sé réttur frumtexti.
Húsafell og Tungur tvær
Þorvaldsstaðir og Hallkelsbær
Kolstaðir og Gilsbakki grær
þar næst slotið til Bjarna.
Kirkjuból, Hvammur, Haukagil,
Sámsstaða hef ég komið til
Háafelli ég hýrast vil
heldur en Tóftarkjarna
Þorgautsstaðir og Fróða frón
eru frábær hjón
Síðumúli og Veggir varna.
Álykta má að Tóftarkjarna sé valið vegna rímsins á móti Veggir varna,
en það er rétt, Tóftarhringur hét það.
Veggir höfða til Síðumúlaveggja
Með kveðju
Óli Ágústar
Sæll Óli,
Þú þekkir mig ekki en í gærkvöldi hitti ég mann að nafni Jón I. Hannesson og fór hann með braginn um bæina í Hvítársíðu. Ég er reyndar ekki viss um að hann muni hana rétt og því leita ég til þín. Mig langar til að láta skrautskrifa braginn og ramma inn. Í braginum er eftirfarandi línur sem mér finnst ekki stemma því ég veit um reit í landi Þorgautsstaða sem heitir Tóftarhringur.
Bragurinn er eftirfarandi eins og Jón fór með hann;
Húsafell og tungur tvær
Þorvaldsstaðir og Hallkelsbær
Kolstaðir og Gilsbakki grær
þar með slær til Bjarna.
Kirkjuból, Hvammur, Haukagil
Hef ég að Sámsstöðum komið til.
Háafell með hýr og vil
heldur en Tóftarkjarna
Þorgautsstaðir og Fróða frón
Síðumúli og veggir varna.
Er hérna rétt með farið?
Bestu kveðjur,
Ásmundur