Þau nálgast óðfluga, blessuð jólin. Það er gott að hugsa til þeirra. Hátíð ljósanna. Rætt er um að það hringli óvenjumikið í peningakössum verslana. Allsnægtaþjóð huggar sig með eyðslu.
Það verður hver og einn að ráða fyrir sig. En ekki búa allir við allsnægtir. Margir eru útundan. Of margir, því miður. Sjúkir, fátækir og einmana. En það hefur alltaf verið og verður.
Vonandi falla molar af borðum þeirra efnaðri til hinna verst settu. Hver og einn ætti að litast um í sínu hugskoti til að aðgæta hvort ekki leynist moli í fórum hans sem hann gæti gefið án þess að vænta gjafar á móti. Það væri kristilegt. „[…] og faðir þinn sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ Þannig mælti frelsarinn við mannfjöldann í brekkunni norðan við Galíleuvatn.
Eitt lagið á hljómdiskinum hennar Ellenar Kristjánsdóttur heitir „Jesús grætur, heimur hlær.“ Ætlunin með pistli þessum var að benda á hljómdisk Ellenar, Sálmar. Hann er yndislegur. Í einu orði sagt. Hjarta mitt fagnaði yfir hverju einasta lagi. Sögur konunnar, röddin, einlægnin og orðin eru af efsta klassa. Fyrir mitt vit á þessi diskur fimm stjörnur. Hann leitar inn í þig, kyrrir þig og blessar.
Þú skalt endilega kaupa þér hann, eða láta gefa þér hann í jólagjöf og gefa vinum þínum hann. Hann lifir svo miklu lengur en jólin því eiginlega er hann alls ekki jóladiskur. Hann er kristileg tónlist fyrir allt árið. Sálmar fyrir allt árið. Huggun allt árið. Frábær.