Tungumál er eitt af undursamlegustu tækjum sem manninum hefur gefist. Of fáir meta það að verðleikum. Markaðssvall nútímans á þar verulega sök, knúið af kröfunni um hámarkshagnað. Unnendur móðurmálsins og ræktendur eiga mikið lof skilið fyrir andóf sitt og þyrfti að gera veg þeirra meiri í umræðunni sem, því miður, snýst orðið viðstöðulaust um fjármagn og gullkálfa, eins og allt annað sé lítilsvirði.
Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Dagur tungunnar. Það er við hæfi. Fáir menn hafa farið jafnvel með móðurmálið. Í andvöku minni í nótt sýndist mér við hæfi að gera lítinn pistil í tilefni dagsins og birta ljóð eftir Jónas.
Andvökusálmur
Svei þér, andvakan arga,
uni þér hver sem má.
Þú hefur mæðumarga
myrkurstund oss í hjá
búið með böl og þrá,
fjöri og kjark að farga.
Fátt verður þeim til bjarga
sem nóttin níðist á.Myrkrið er manna fjandi,
meiðir það líf og sál,
sídimmt og síþegjandi
svo sem helvítis bál,
gjörfullt með gys og tál.
Veit ég, að vondur andi
varla í þessu landi
sveimar um sumarmál.Komdu, dagsljósið dýra!
Dimmuna hrektu brott.
Komdu, heimsaugað hýra!
Helgan sýndu þess vott,
að ætíð gjörir gott, –
skilninginn minn að skýra,
skepnunni þinni stýra.
Ég þoli ekki þetta dott.Guðað er nú á glugga.
Góðvinur kominn er
vökumanns hug að hugga.
Hristi ég nótt af mér,
uni því eftir fer.
Aldrei þarf það að ugga:
aumlegan grímuskugga
ljósið í burtu ber.