Það voru samt greinar um Derrida, látinn, sem áttu hug minn í gær. Lesbók Moggans gerði honum ágæt skil um helgina þar sem ekki færri en átta greinar, eða pistlar, eru birtir um hann. Nú er það ekki svo að ég hafi mikið vit á Derrida. Ekki fremur en öðrum frægum mönnum sem kenndir eru við heimsspeki. Get og þess vegna tekið undir með blaðamanninum sem vitnaði um för sína á fyrirlestur hjá meistaranum og kvaðst hafa skilið minnst af því sem hann sagði.
Það eru samt nokkrar setningar í greinunum sem vöktu mig í gærkvöldi þegar kominn var tími til að sofna. Í grein Irmu Erlingsdóttur segir: „Derrida heldur því fram að heimspekin sé takmörkuð að því leyti að hún gleymi hinu óendanlega og leitist við að vera endanleg, að ná utan um allt.” Þarna stansaði ég við. Hugsunin um að „leitast við að vera endanleg” vakti upp í mér hugleiðingar um trúarleiðtoga.
Einkenni á ræðum svo margra fyrirliða í hinum ýmsu trúartegundum, og ekki síst þar sem ég þekki best til, einkennast nefnilega af því að tala eins og þeir hafi fundið hina endanlegu niðurstöðu í trúmálum. En í hvert sinn sem einhver hefur talið sig finna hina endanlegu niðurstöðu sem nær utan um allt, er komið í veg fyrir að hugsunin um hið óendanlega nái að hvetja og brýna mann og annan til leitar að hærra marki en því sem við blasir.
Og með þetta viðhorf að leiðarljósi verður auðveldara að skilja viðbrögð faríseanna og saddúkeanna við komu Jesú Krists inn í veröldina, hugsun hans, orð og tákn. Má og hugsa sér að viðbrögð þeirra ríkjandi stétta sem Kristur átti lög við, hafi stafað af ótta við að missa þau völd og þá virðingu sem þær höfðu komið sér upp. En eins og í stjórnmálum, og víðast hvar þar sem maðurinn kemur að, þá er það valdið og fíknin í það sem virðist móta hugsun og viðhorf ráðamanna, hvernig svo sem þeir reyna að setja það í annan búning með orðaflækjum sínum. Og fór Nietzsche nærri um það.