Þau heimsóttu okkur í Litlatré, síðastliðið laugardagskvöld, hjónin á Sámstöðum í Hvítársíðu. Sitt hvað bar á góma. Meðal annars göngur og réttir. Tími þeirra fer nú í hönd. Nesmelsrétt er þeirra heimarétt. Hún er um það bil 25 ára, byggð úr timbri. Er í landi Haukagils. Þangað smala bændurnir heimahagana og Síðufjallið. Þá losna þeir við að reka féð niður í Þverárrétt í Þverárhlíð og heim aftur. Góð ráðstöfun. Í Nesmelsrétt verður réttað 3. september.
Ýmsar minningar um göngur og réttir bar á góma. Meðal annarra frásögn af bónda nokkrum í Hvítársíðu sem var í göngum fyrir liðlega fimmtíu árum. Leitarmannahópurinn hafði farið eldsnemma, á öðrum degi, frá gangnakofanum við Kjarrá. Þá er riðið fram fjallið að svæðaskilum og áætlað að smala til baka niður að kofanum. Fara sumir á hestum til baka en aðrir verða að ganga. Fjallkóngurinn raðar á svæðin.
Þegar komið er niður í gangnakofan aftur eftir dagssmölun eru menn gjarnan orðnir lúnir og fremur þeir sem þurftu að ganga, eins og gefur að skilja. Menn taka af sér hlífðarfatnað og stígvél og það gerði umræddur bóndi einnig. Taka menn eftir því að hann hvolfir öðru stígvéli sínu og hristir það og úr því fellur dauð mús. Segir hann þá stundarhátt: „Ég fann þetta í morgun. Það var eitthvað.”